Veiðileyfagjald

Mánudaginn 28. október 1996, kl. 16:56:27 (532)

1996-10-28 16:56:27# 121. lþ. 11.8 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., Flm. ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[16:56]

Flm. (Ágúst Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Enn og aftur kýs hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon að blanda saman umræðu um veiðileyfagjald og fiskveiðistjórnunarkerfinu. (Utanrrh.: Það gera nú fleiri hérna.) Það gera fleiri. Það hefur verið mjög áberandi í þessari umræðu en ég vil leiðrétta það að við höfum aldrei haldið því fram að veiðileyfagjald leysi helstu vandamál fiskveiðistjórnunar. Það hefur aldrei komið fram í okkar umræðu. Við höfum sérstaklega nefnt að það er hægt að leggja á veiðileyfagjald óháð fiskveiðistjórnunarkerfi. Ég sagði hér áðan að ég skil fullkomlega af hverju menn blanda þessu saman í umræðunni. Ég er ekki í sjálfu sér að finna að því en ég hef beðið menn að blanda ekki í sjálfu sér tillögugerðinni inn í með þeim hætti. Við höfum aldrei sagt að veiðileyfagjald sé gullgerðarvél. Ég held að það sé komið frá hæstv. forsrh. þetta tal um gullgerðarvél. Við höfum aldrei rætt um það. Ég hef margoft farið yfir fiskveiðiarðinn og þarf ekki að lýsa því hér nánar. Við höfum sagt: Efnahagsstjórnun hér á landi undanfarna áratugi hefur alltaf tekið mið af sjávarútvegi. Það gerir þessi tillaga líka. Það koma 50% af gjaldeyristekjunum frá sjávarútvegi, 16% af landsframleiðslunni koma frá sjávarútvegi. Það eru um 12--13% af vinnuafli sem er bundið í sjávarútvegi. En fyrir utan réttlætisrökin, sem ég hef margoft tíundað hér, þá er mjög mikilvægt að aðrar atvinnugreinar byggist upp við hlið sjávarútvegs. Menn þurfa ekki annað en skoða tölur um atvinnuskiptinguna og framlagið til landsframleiðslunnar. Það skiptir máli að hér byggist upp heilbrigt efnahagsumhverfi við hlið sjávarútvegs. Út á það gengur þessi tillaga þegar við erum að skoða væntanlegar horfur í sjávarútvegi næstu árin. Síðan getur hv. þm. verið ósammála mér í því.

Mér finnst ekkert réttlæti vera í því þegar úthlutað er sameiginlegum auðlindum, sameiginlegum réttindum af hálfu ríkisins sem ganga síðan kaupum og sölum. Mér finnst ekkert réttlæti vera fólgið í því að það skyldi vera gert án endurgjalds. Lái mér hver sem vill. Ég vil ekki þetta kerfi. Hins vegar getur hv. þm. komið og útfært betur, ekki núna í andsvari, sínar breytingar á stjórnkerfinu og þá með veiðileyfagjaldi, því að ég kýs þó að skilja hann svo að þrátt fyrir breytingar sem hann vill gera á stjórnkerfinu, þá geti hann alveg fallist á það að veiðileyfagjald sé hluti af þeim endurbótum sem muni þá líta dagsins ljós við betra tækifæri.