Brunatryggingar

Þriðjudaginn 29. október 1996, kl. 14:34:00 (573)

1996-10-29 14:34:00# 121. lþ. 12.7 fundur 75. mál: #A brunatryggingar# (umsýslugjald) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur

[14:34]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þetta er sérkennilegt mál. Það verður að segjast alveg eins og er að stjórnsýslunni í landinu og trúverðugleik hennar er ekki mjög til framdráttar þurfa að taka á dagskrá mál af þessu tagi. Ég held að óhjákvæmilegt sé að fara aðeins yfir það hvað hefur gerst, hvað liggur á bak við í málinu. Í stuttu máli sagt var gefin út reglugerð á árinu 1994 og síðan, eins og segir með afar hógværum hætti í greinargerð, eru gerðar athugasemdir við hana.

Sú reglugerð var gefin út um þetta sérstaka gjald með stoð í almennri reglugerðarheimild í 5. gr. þágildandi laga. Þannig ætluðu menn að stytta sér leið í því tilviki og rifjum svo upp hver var viðskrh. á þessu herrans ári, 1994. (Gripið fram í: Heilbr.- og trmrh.) Eða hvar þetta var til húsa þá. Það mun hafa verið þá hjá heilbr.- og trmrh., alveg rétt. Menn ætluðu að leggja á þetta gjald, verulega gjaldtöku á húseigendur í landinu með reglugerð á grundvelli almennrar reglugerðarheimildar í síðustu grein laganna. Þetta stóðst auðvitað ekki, var alveg fráleitt. Þegar menn viðurkenndu það loksins þá á að sjá fyrir þessu með því að setja inn í lög nr. 150/1994, um brunatryggingar, heimild til að taka þetta gjald, alveg ótvíræða heimild. Það var að vísu þannig úr garði gert að það var hámarksákvæði og áfram falið í vald ráðherra með reglugerð að mæla frekar fyrir um hvernig húseigendur skyldu greiða gjaldið. Þetta dugði ekki heldur því að umboðsmaður Alþingis komst að þeirri niðurstöðu að í fyrsta lagi væri gjald, svona úr garði gert, skattur en ekki þjónustugjald eða greiðsla fyrir veitta þjónustu í þeim skilningi að það dygði til að flokka gjaldið sem slíkt. Þetta væri skattur og að enn væri lagagrundvöllur gjaldtökunnar ekki fyrir hendi. Það er því verið að reyna að gera þriðju tilraun á tveimur árum eða svo að koma þessu gjaldi á menn með löglegum hætti. Og vonandi verður þetta þannig að allt er þegar þrennt er og haldi þá núna. Þetta er, herra forseti, alveg dæmalaust að menn skuli ekki vanda sig meira við hluti af þessu tagi. Það er ekki eins og hér séu einhverjir algerir smámunir á ferð. Þetta er lögþvinguð gjaldtaka sem lendir á öllum húseigendum, stórum og smáum, viss prósenta eða prómill af matsverði eignanna og menn eiga engrar undankomu auðið ef svo má að orði komast.

Það er fleira sem ég tel eftir sem áður ástæðu til að nefna, herra forseti, en þennan grátbroslega aðdraganda málsins. Það er t.d. mjög sérkennilega mælt fyrir um gjalddaga og greiðslu gjaldsins í síðasta málslið 1. gr. Þar er gengið út frá að gjaldið skuli greiðast ekki síðar en 45 dögum eftir gjalddaga brunatryggingariðgjalda sem innheimtan er tengd. Þar er sagt, herra forseti:

,,Vátryggingafélag skal innheimta gjaldið [þ.e. umsýslugjaldið] samhliða innheimtu brunatryggingariðgjalda og skila til stofnunarinnar eigi síðar en 45 dögum eftir gjalddaga hennar.`` Og þá er spurningin, hver er þessi ,,hún``? Af hverju er þetta kvenkyn allt í einu komið þarna inn í málið? Ég held að þarna hljóti að vera meinleg orðalagsvilla og vitlaus tilvísun. Þetta hljóti að eiga að vera gjalddaga þess, þ.e. iðgjaldsins því það er væntanlega iðgjaldið sem kemur á gjalddaga en ekki tryggingin. Það er þá a.m.k. efnislega skýrt að þetta skuli greiðast af viðkomandi vátryggingafélagi 45 dögum eftir að viðkomandi brunatryggingariðgjöld koma á gjalddaga. Gott og vel. Ef það er réttur skilningur þá höfum við það, en þá þyrfti að líta aðeins á þetta orðalag. Er þetta svo að tryggingafélögin eigi að greiða þetta til ríkisins án tillits til þess hvort viðkomandi tryggingartaki hafi greitt sínar tryggingar til þeirra? Þau eigi sem sagt að standa skil á gjaldinu innan 45 daga frá gjalddögum allra sinna trygginga án tillits til innheimtu hjá sér. Eru þau gerð algerlega og einhliða ábyrg fyrir að skila þessu svo lengi sem tryggingafélög fari ekki á hausinn? Innheimtan verði 100% fyrir ríkið en þau sitji eftir með það verkefni að ná þessu inn. Við vitum að vísu að af vissum ástæðum eru vanskil ekki stórfellt vandamál í þessu tilviki því að menn hafa húseignir sínar ógjarnan ótryggðar og mega það í sjálfu sér ekki. En eftir stendur hvort þetta sé eðlileg innheimta sérstaklega þegar haft er í huga að síðasti málsliðurinn hljóðar svo, með leyfi forseta: ,,Ekki greiðist þóknun vegna innheimtunnar.`` Þetta er því alger kvöð á vátryggingafélögin á þeirra kostnað, ríkinu að kostnaðarlausu. Það er að vísu sagt hér og sjálfsagt réttilega að ætla megi að um óverulegan kostnaðarauka verði að ræða. Þó hlýtur þetta að vera þannig ef lesið er samkvæmt orðanna hljóðan að tryggingafélögin þurfi að reikna út og gera skil á 0,025 prómillum jafnan innan 45 daga frá gjalddaga allra sinna trygginga án tillits til þess hvernig innheimtan stendur í þeirra innheimtukerfi eða það ímynda ég mér að hljóti að vera. Mér fyndist allt í lagi að hæstv. ráðherra færi aðeins betur yfir þetta mál, ekki síst í ljósi þess að nú held ég að sé komið að því að Alþingi þurfi að vanda sig, ráðuneytin og allt stjórnkerfið, að brjóta ekki fingur sína einu sinni enn í þessu stórmáli og koma umsýslugjaldinu á löglega í þriðju eða fjórðu tilraun.

Herra forseti. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra um stöðu þeirra gjalda sem tekin hafa verið án þess að fullnægjandi lagastoð væri fyrir hendi. Hyggst ríkið endurgreiða þeim sem hafa verið látnir greiða þetta gjald eða þennan skatt á ólögmætum forsendum? Er ekki hreinlegast að menn viðurkenni mistök sín í verki? Líka að því leyti til að oftekið umsýslugjald og þau gjöld verði endurgreidd, sem standa á fyrri lagagrunni eða reglugerða, fram að því að gjaldtakan verður heimiluð með þessu frv. þegar að lögum er orðið. Hver er skoðun hæstv. ráðherra á því hver væru réttustu viðbrögð stjórnvalda í því sambandi?