Jarðhitaréttindi

Þriðjudaginn 29. október 1996, kl. 16:13:03 (603)

1996-10-29 16:13:03# 121. lþ. 12.9 fundur 14. mál: #A jarðhitaréttindi# frv., 15. mál: #A orka fallvatna# frv., Flm. HG
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur

[16:13]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Ég geri ráð fyrir því að umræða þessi verði ekki mikið lengri en þau orð sem ég mæli hér. Ég vil þakka hv. þm. Jóni Baldvini Hannibalssyni fyrir það að taka þátt í umræðunni og koma með margar athyglisverðar og skarpar ábendingar í sambandi við lögfræðilegan bakgrunn málsins og almenn sjónarmið í þessu sambandi. Ég gleðst að sjálfsögðu ætíð þegar ég verð var við að það er bandamenn að finna í mikilvægum málum. Ég hef fundið það að í þessu efni þá eru sjónarmið Alþb. og Alþfl. mjög svipuð. Þó að við höfum kannski keyrt þessi mál fastar gagnvart þinginu þá hefur Alþfl. einnig verið að sinna þeim og það er vissulega fagnaðarefni.

Þau atriði sem hv. þm. gerði hér að umtalsefni og kom með ábendingar um gætu verið tilefni umfjöllunar af minni hálfu. Ég ætla ekki að fara langt út í það efni en ég sé ástæðu til þess að taka undir það að ýmis atriði sem hér eru færð í útfærslubúning geta talist álitamál og geta hvert út af fyrir sig kallað á nánari skoðun og umfjöllun þar sem önnur sjónarmið geta alveg átt rétt á sér. Þetta gildir t.d. um þá tillögu að draga mörkin milli einkaeignarréttar og þjóðareignar við 100 metra dýpi. Þau mörk voru valin vegna þess að þau sýndust sanngjörn þegar málið var mótað og frv. var flutt, að miða við þetta og seilast ekki lengra en hér er gert í sambandi við það að lýsa eignir ríkisins verðmæti, í þessu tilviki jarðhitann sem er að finna beinlínis á yfirborðinu og sem lúta að einkaeignarrétti að mati flestra. Nokkru áður en ég flutti þetta mál eða gerðist talsmaður þess hér í þinginu, þá flutti ég frv. um eignarnám á jarðhita á yfirborði sem var Deildartunguhver í Borgarfirði, vatnsmesti hver í landinu, og með því máli var staðfest það sjónarmið að þar væri um einkaeignarrétt að ræða á þeirri auðlind. Það var mjög viðkvæmt mál fyrir marga í þinginu þrátt fyrir þetta að stíga þetta skref, en það var gert með tilliti til þeirra hagsmuna sem þar voru í húfi sem var væntanleg jarðvarmavirkjun fyrir Akranes og Borgarnes á þeim tíma.

[16:15]

En kosturinn við það að draga mörkin miðað við tiltekið dýpi, setja eina almenna reglu er sá miðað við t.d. það að fara að skilja á milli jarðhita eftir því hvort það eru svonefnd háhitasvæði eða lághitasvæði, kosturinn er ótvíræður að mínu mati og þess vegna var þetta valið, en horfið frá því sem gert hafði verið áður að tillögu mætra manna eins og Magnúsar Kjartanssonar, ráðherra og hv. fyrrv. þingmanns Alþb., að miða við að taka háhitasvæðin út úr sérstaklega, en hér er reynt að koma höndum yfir jarðhitann sem auðlind óháð því hvort um háhita- eða lághitasvæði er að ræða.

Það sem hv. þm. síðan nefndi varðandi samanburð á norrænum rétti og íslenskum rétti, konungsreglan eða kóngsreglan eins og hv. þm. nefndi, það er sannarlega umræðunnar virði og athugunar virði hvernig á því stendur að íslensk lögtúlkun og lögspeki hefur þróast á annan veg heldur en gerist á Norðurlöndum víða í þessum efnum og er ástæða til að taka undir. Það er full ástæða til þess að kanna þau efni og jafnhliða það að umræða meðal íslenskra lögfræðinga hefur verið mjög takmörkuð um þessi efni og er það vissulega miður.

Ég tel líka að hér hafi ekki orðið sú þróun réttarfarslega séð sem hefur gerst í mörgum löndum, ekki aðeins á Norðurlöndum heldur víða um heim, sem hefur verið til styrkingar á almannasjónarmiðinu þegar náttúruauðlindir eiga í hlut og nægir að vísa til ákvæða í bandarískum rétti og bandarískri löggjöf að því er varðar t.d. auðlindina ,,jarðhita`` þar sem það hákapítalíska ríki var ekki í neinum vandræðum með að kveða upp úr um það að slík náttúruauðæfi væru þjóðareign og skyldu vera það og mættu menn nokkuð af læra.

Þetta tengist auðvitað viðhorfum til eignarhalds og yfirráðarétti á náttúruauðindum almennt séð og þar á meðal á lífrænum auðlindum eins og stundum hefur verið rætt í tengslum við þetta mál. Í því efni höfum við verið sammála alþýðuflokksmönnum um það að fiskstofnar í sjó skuli vera þjóðareign og það tókst að festa í löggjöf með stuðningi Alþfl. og var það vissulega vel. En fyrstir manna til að taka það mál upp í tengslum við stjórnkerfi fiskveiða vorum við alþýðubandalagsmenn á árinu 1983--1984 og ég held að sá sem hér stendur hafi fyrstur vakið athygli á því að á þessu þyrfti að taka gagnvart löggjöf, að slá því föstu að fiskstofnar á íslenskum hafsvæðum væru þjóðareign. Þannig höfum við litið til náttúruauðlindanna í heild og þetta er enn fremur undirstrikað með því frv. um breytingu á stjórnarskrárákvæðum sem Ragnar Arnalds hefur flutt.

Það er svo mál út af fyrir sig hvernig með arðinn skuli farið af slíkum auðæfum og aðgangi að þeim. Hér var rætt áðan utan dagskrár mál sem varðar einokunarfyrirtæki, stærsta orkufyrirtæki landsmanna, og ég leyfi mér, virðulegur forseti, án þess að vera að taka það mál sérstaklega upp, að vekja athygli á því sjónarmiði að þegar um er að ræða einokunareignarrétt að náttúruauðlindum og nýtingu eins og um er að ræða varðandi orkufyrirtækið Landsvirkjun þá er mér það mjög til efs að það geti talist eðlilegt að arður af slíku sé notaður til óskyldra efna, í óskyldum tilgangi. Ég held að það væri þörf á því að fara ofan í það sérstaklega í tengslum við orkufyrirtækin svo að dæmi sé tekið hvort það sé eðlilegt sjónarmið, hvort það sé eðlileg framkvæmd að nýta arðinn af einokunarfyrirtæki sem rekið er í almannaþágu samkvæmt sérstökum heimildum til óskyldra atriða annars en þess að viðhalda viðkomandi fyrirtæki, lækka orkuverð og bæta hag þeirra sem eru viðskiptaaðilar þess. Ég held að menn hafi hér í seinni tíð verið að fara inn á mjög hæpnar brautir í þessum efnum og mér sýnist að það arðkröfusjónarmið sem uppi er að því er þetta varðar og var til umræðu fyrr í dag sé reist á mjög hæpnum forsendum, og geta þær talist bæði hæpnar lagalega og siðferðilega. En það er önnur saga sem ég ætla ekki að ræða frekar eða rekja.

Ég vænti þess hins vegar að ekki verði þörf á því af minni hálfu að mæla fyrir þeim málum sem hafa verið flutt oftar í þinginu en gert hefur verið á þessum degi. Ég gat þess að það er af nokkurri þrákelkni sem við alþýðubandalagsmenn höfum flutt þetta mál síðan 1983 og endurflutt mjög oft til þess að halda málinu vakandi og umræðu um það. Það eru viss teikn um það að hingað geti komið inn í þingið stjórnarfrumvörp sem taki á hliðstæðum málum. Fram kom hjá ráðherra iðnaðarmála fyrr í umræðunni að hann útilokaði það ekki að reynt verði að stilla saman um þessi efni ef mikið ber á milli þeirra mála sem hér eru rædd og annarra skyldra mála sem flutt hafa verið hér, sem sagt sjónarmiða stjórnarandstöðu og ríkisstjórnar. Ég væri glaðastur ef svo færi að það tækist sammæli í þinginu um lögfestingu á yfirstandandi þingi því að þessi mál eru brýn og löngu tímabært, eins og hér hefur verið tekið undir, að sett sé löggjöf og Alþingi reki af sér slyðruorðið í þessum efnum. Og það er með tilliti til þess sem ég lýsi þeirri von að ég þurfi ekki að mæla fyrir frumvörpum af þeim toga sem ég flyt nú öðru sinni heldur verði til löggjöf sem við getum það vel við unað öll hér á þingi að dugi sem lög í landi um þessa miklu hagsmuni. (JBH: Bjartsýni.) Hv. formaður Alþfl., virðulegur forseti, ber mér á brýn bjartsýni í þessum efnum. Það er skylt að reyna að vera bjartsýnn á stundum, ekki síst snemma á þingi, en auðvitað ætti reynslan að hafa kennt mér það á undanförnum mörgum þingum eins og hv. þm. Jóni Baldvini Hannibalssyni að það er varlegt að treysta orðum sem komið hafa úr herbúðum þeirra sem nú fara með stjórn landsins í þessum efnum. Fyrir því er löng reynsla og reyndar hafa ráðherrar Alþfl., sem farið hafa með iðnaðarmál og orkumál á undanförnum árum, þurft að hafa uppi vísu en orðið afturreka með hana og ekki enst örendi til þess að koma í gegn löggjöf hér í þinginu. Þannig að ef svo fer, þá mun ég auðvitað rísa upp á ný á komandi þingi til þess að halda málinu vakandi uns niðurstaða er fengin.