Jarðhitaréttindi

Þriðjudaginn 29. október 1996, kl. 16:27:54 (605)

1996-10-29 16:27:54# 121. lþ. 12.9 fundur 14. mál: #A jarðhitaréttindi# frv., 15. mál: #A orka fallvatna# frv., Flm. HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur

[16:27]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil eindregið taka undir hvatningarorð eða frýjunarorð hv. þm. Jóns Baldvins Hannibalssonar í garð núv. hæstv. félmrh. Ég held að það sé fullt tilefni til þess. Ég kannast við orð, ég vil ekki segja yfirlýsingar en orð í þá veru sem hér var vitnað til tengt núv. hæstv. félmrh. Raunar kannast ég við það frá fyrrv. formanni Framsfl., sem þekkti sitt lið nokkuð vel, og var ekki í hópi landeigendaaðalsins sem hér hefur verið svo nefndur, en hann var í hópi þeirra sem voru reiðubúnir til að teygja sig nokkuð langt til að styðja almannasjónarmiðin í þessum málum.

Það skal ítrekað að þörfin á því að setja nú löggjöf er mun brýnni en áður vegna EES-samningsins og þeirra laga um fjárfestingar útlendinga í landinu sem sett voru á sl. vori þar sem allt er opið nú gagnvart öllum sem vilja fjárfesta og geta þar með orðið eignarréttarlegir handhafar þessarar náttúruauðlindar sem við viljum líta svo til að væri íslensk hvort sem um væri að ræða einkaeignarrétt eða almannarétt. Við skulum vona að það verði styrkur til þess að ná hér fram skaplegri löggjöf og er þá sama hvaðan gott kemur, þ.e. stuðningurinn, af hvaða rótum hann er runninn.