Jöfnun atkvæðisréttar

Miðvikudaginn 30. október 1996, kl. 13:44:06 (608)

1996-10-30 13:44:06# 121. lþ. 14.1 fundur 58. mál: #A jöfnun atkvæðisréttar# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur

[13:44]

Fyrirspyrjandi (Ólafur Örn Haraldsson):

Virðulegi forseti. Ég ber fram fyrirspurn til forsrh.: Hvað líður vinnu ríkisstjórnarinnar að einföldun kosningalöggjafarinnar og jöfnun á vægi atkvæða á milli kjördæma, samanber ákvæði í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar um?

Kosningafyrirkomulag okkar er óréttlátt, gamaldags, og það slævir siðferðis- og réttlætiskennd venjulegs fólks. Það elur á sundurlyndi milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðarinnar. Það leiðir af sér kjördæmapot og óarðbærar fjárfestingar sem þjóðin hefur ekki efni á. Það á ekki að nota grundvallarrétt um atkvæðisvægi til þess að jafna aðstöðu eða aðstöðuleysi borgaranna. Til þess eru önnur meðul og önnur tæki betri. Kosningalöggjöfin er þar að auki torskilin og svo flókin að venjulegt fólk skilur hana ekki. Hvergi sést það betur en hér á Alþingi að menn eru rígfastir í núverandi fyrirkomulagi landsfjórðunga, kjördæma, þingmannareddinga eins og samgöngur og atvinnulíf hafi ekki breyst á síðustu árum eins og hverjum manni er kunnugt um. Fjárveitingavaldið og ríkisstjórn hafa afkomu byggðarlaga í hendi sér og hingað mænir fólk eðlilega eftir lausnum og auðvitað beitir það þeim ráðum sem það telur tiltækt, þ.e. atkvæðasvipunni á atkvæðaþyrsta þingmenn. Kosningalöggjöfin er þar af leiðandi ein mesta meinsemd í þjóðfélagi okkar. En hún jafnar og tryggir jafnræði á milli stjórnmálaflokkanna á Alþingi og er hér mergurinn málsins, stjórnmálaflokkarnir láta kyrrt liggja meðan valdajafnvægið er tryggt fyrir þá, á meðan óréttlætið brennur á landsmönnum. Ég skora á ríkisstjórnina að hefjast handa í þessu mikilvæga máli.