Sjúkraflutningar á höfuðborgarsvæðinu

Miðvikudaginn 30. október 1996, kl. 14:46:41 (640)

1996-10-30 14:46:41# 121. lþ. 14.7 fundur 77. mál: #A sjúkraflutningar á höfuðborgarsvæðinu# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi GÁS
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur

[14:46]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Árni Stefánsson):

Virðulegi forseti. Með tilurð breyttra laga um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga í kringum árið 1990 þar sem rekstur heilsugæslunnar, og þar með sjúkraflutningar færðist yfir á hendur ríkisvaldsins, var gripið til þess ráðs þar sem öflug slökkvilið voru til staðar að gerðir voru samningar milli ríkisvaldsins og viðkomandi sveitarfélaga svo sem í Hafnarfirði, Reykjavík, Akureyri og á Suðurnesjum, um framkvæmd þessara sjúkraflutninga. Þeir samningar hafa verið í gildi fram undir það síðasta. Eðli máls samkvæmt hlýtur það að vera skynsamleg ráðstöfun að samhæfa og samnýta öflug slökkvilið og sjúkraflutninga og hafa þau mál gengið býsna vel fram og þjónustan verið með miklum ágætum.

Nú hafa hins vegar borist tíðindi þess efnis að hæstv. heilbrrh. og ráðuneyti hans hafi sagt upp þessum samningum, a.m.k. hér á höfuðborgarsvæðinu og á Stór-Hafnarfjarðarsvæðinu þ.e. upptökusvæði Hafnarfjarðarumdæmis, Bessastaðahreppi og Garðabæ. Það ríkir fullkomin óvissa um framtíð þessara mála og þess vegna hef ég leyft mér að spyrja hæstv. heilbrrh.: Hvers vegna hefur samningum um sjúkraflutninga við Reykjavíkurborg annars vegar og Hafnarfjarðarbæ hins vegar verið sagt upp? Og í öðru lagi: Telur ráðherra að núverandi samhæfing slökkvistarfs og sjúkraflutninga í þessum sveitarfélögum, og raunar fleirum, sé óheppileg? Og í þriðja lagi: Áformar ráðherra að bjóða út þjónustu sjúkraflutninga á upptökusvæðum Reykjavíkurborgar og Hafnarfjarðarbæjar? Ef svo er, verður útboðið opið? Eða með öðrum orðum: Hvernig verður að því útboði staðið?

Mér er vissulega kunnugt um það að viðræður hafa átt sér stað milli forsvarsmanna þessara sveitarfélaga og heilbrrn. um það hvernig megi standa að þessum málum og þar er auðvitað, eins og fyrri daginn, verið að prútta um peninga. En ég vil jafnframt láta þess getið að nú þegar liggur fyrir áframhaldandi vilji Rauða krossins í þessum sveitarfélögum báðum um að sjá um fjármögnun og fyrirkomulag bílamálanna eins og verið hefur þannig að engar breytingar eru þar. Hafnarfjarðarbær til að mynda hefur lagt á það áherslu að hann vilji áframhaldandi samvinnu á þeim grundvelli sem verið hefur á umliðnum fimm árum og leggur þunga áherslu á að svo verði. Ég vænti þess að ráðherra geti svarað mér þessum spurningum og upplýst þingheim um stöðu þessara mála að öðru leyti.