Læknavakt í Hafnarfirði

Miðvikudaginn 30. október 1996, kl. 14:58:13 (644)

1996-10-30 14:58:13# 121. lþ. 14.8 fundur 78. mál: #A læknavakt í Hafnarfirði# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi GÁS
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur

[14:58]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Árni Stefánsson):

Virðulegi forseti. Fyrir einhverjum vikum síðan átti ég orðastað við hæstv. heilbrrh. í óundirbúnum fyrirspurnum um þau mál sem ég hef gert formlega fyrirspurn um, á þskj. 78. Þar spyr ég:

1. Hvers vegna er engin virk læknavakt í Hafnarfirði frá kl. 12 á miðnætti til kl. 8 að morgni eins og verið hefur um langt árabil?

2. Hvert eiga 25 þús. íbúar Hafnarfjarðar, Garðabæjar og Bessastaðahrepps að snúa sér þurfi þeir læknisaðstoð í heimahúsi að næturlagi?

3. Hvað hyggst ráðherra gera til að bæta úr því ófremdarástandi sem í þessum málum ríkir?

Í samtali okkar hæstv. ráðherra fyrir einhverjum vikum svaraði hann því til að íbúar í þessum sveitarfélögum gætu hringt á St. Jósefsspítala, þar væru læknar til staðar. Ég sagði í þeim umræðum að það væri misskilningur af hálfu ráðherra. Og það hefur komið á daginn, eftir frekari eftirgrennslan af minni hálfu, að sú er raunin. St. Jósefsspítali hefur engum skyldum að gegna í þessu sambandi og raunar engin sjúkrastofnun í Hafnarfirði þegar kemur að næturvakt lækna í Hafnarfjarðarumdæmi. Hér er auðvitað um mikið alvörumál að ræða. Allt óöryggi og öll óvissa á þessum vettvangi er auðvitað óþolandi. Þarna er um að ræða vitjanir í þúsundatali á ári hverju. Ég gerði mér það til gamans, en auðvitað með fullri alvöru, nú í dag að hringja á Slökkvistöðina í Hafnarfirði, sem hefur fram undir það síðasta verið vettvangur næturlæknis og slökkviliðsmenn verið þar til svara, og spurði hvaða svör íbúi í þessum sveitarfélögum, einn af 25.000, fengi ef hann hringdi á slökkvistöðina og bæði um lækni vegna veiks barns. Varðstjóri í slökkviliðinu svaraði því til að það einasta sem hann gæti sagt væri: Hringdu á Ríkisspítalana eða barnadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur.

Hvaða svör fá foreldrar veiks barns í Hafnarfirði þar inn frá? Jú, komdu með barnið. Með öðrum orðum, það er ekki einn einasti læknir á þessum tíma sólarhringsins sem sinnir húsvitjunum. Hafnfirðingar, Garðbæingar og Bessastaðahreppsbúar eiga þess ekki kost eins og íbúar á Reykjavíkursvæðinu að fá lækni í húsvitjun að næturþeli. Þetta er auðvitað gersamlega óþolandi og ég vænti þess að hæstv. ráðherra hafi nú þegar gripið í taumana frá því við áttum samtal um þetta síðast. Ef svo er ekki, þá spyr ég: Til hvaða ráðstafana verður gripið til að bægja þessu ófremdarástandi frá nú þegar?