Læknavakt í Hafnarfirði

Miðvikudaginn 30. október 1996, kl. 15:01:24 (645)

1996-10-30 15:01:24# 121. lþ. 14.8 fundur 78. mál: #A læknavakt í Hafnarfirði# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur

[15:01]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá fyrirspyrjanda að nú er ekki læknavakt eða staðarvakt svokölluð á vegum heilsugæslunnar í Hafnarfirði frá kl. 12 á miðnætti til 8 að morgni. Staðarvakt er á umræddu svæði til kl. 12 á miðnætti og eiga læknarnir sér samastað á slökkvistöðinni í Hafnarfirði eins og verið hefur um árabil. Hins vegar eru þeir á gæsluvakt frá miðnætti til morguns sem þýðir að þeir sinna upplýsingagjöf og ráðgjöf m.a. í síma og eru tilbúnir í útköll og að koma tafarlaust á vettvang í bráðaútköllum. Það fyrirkomulag er til bráðabirgða og komið á af læknunum sjálfum. Þetta byggist á mati læknanna á þörf fyrir vaktþjónustu, en jafnframt þeirri staðreynd að sífellt er orðið erfiðara að manna staðarvakt allan sólarhringinn. Frá 1. maí sl. var síðan komið á þeirri viðbótaröryggisþjónustu að neyðarbíllinn í Reykjavík sinnir þessu svæði líka og er því ekki þörf á sérstakri læknamönnun á sjúkrabifreið í Hafnarfirði líka. Þetta fyrirkomulag fullnægir öryggisþörfum að mati læknanna sjálfra. Með hliðsjón af þessari stöðu tel ég að skoða verði hvort þetta þjónustusvæði geti sameinast höfuðborgarsvæðinu á einhvern hátt, ekki síst þegar haft er í huga að í undirbúningi er nýr samningur um sjúkraflutninga.

Í framhaldi af kjarasamningum ríkisins við læknana frá 11. sept. sl. er ráðuneytið að ganga frá endanlegri ákvörðun um vaktafyrirkomulag í samráði við stjórn heilsugæslustöðvarinnar og héraðslækni og verður gengið frá því nú á næstu dögum.

Virðulegi forseti. Önnur spurning hv. fyrirspyrjanda er: ,,Hvert eiga 25 þús. íbúar Hafnarfjarðarbæjar, Garðabæjar og Bessastaðahrepps að snúa sér þurfi þeir læknisaðstoð í heimahúsi að næturlagi.`` Það hefur engin breyting orðið á boðleiðum hjá íbúum þessa svæðis. Þeir hringja nú sem fyrr í vakthafandi lækni eða í Neyðarlínuna.

Þriðja spurning hv. fyrirspyrjanda er: ,,Hvað hyggst ráðherra gera til að bæta úr því ófremdarástandi sem í þessum málum ríkir?`` Það er rangt hjá hv. fyrirspyrjanda að um ófremdarástand sé að ræða og fullyrðing um ófremdarástand á ekki við nein rök að styðjast. Það kemur fram í svari við 1. lið fyrirspurnarinnar hvað er á döfinni og við hverju er að búast hvað varðar vaktþjónustu lækna og sjúkraflutninga á þessu þjónustusvæði. Þar kemur einnig fram að þetta skipulag sem nú ríkir er skipulagt af læknum svæðisins, þar með talið héraðslækni, með tilliti til þarfa íbúanna og er fyllilega forsvaranlegt fyrirkomulag. Öryggi íbúa þessa svæðis er tryggt að mati þeirra sem best þekkja.

Varðandi það sem kom fram í máli hv. þm. áðan um St. Jósefsspítala, þá veit ég vel að þeir svara ekki kalli út í bæ, þeir fara ekki í læknisvitjun út í bæ. En það er læknavakt allan sólarhringinn á St. Jósefsspítala.