Endurskoðun laga um málefni aldraðra

Miðvikudaginn 30. október 1996, kl. 15:14:46 (651)

1996-10-30 15:14:46# 121. lþ. 14.9 fundur 89. mál: #A endurskoðun laga um málefni aldraðra# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi GHall
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur

[15:14]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. heilbrrh. fyrir hennar stutta svar. Ég vil segja að ég hefði gjarnan viljað heyra það frá ráðherra hverjir sitja í þeirri nefnd sem er að endurskoða lögin. Er það virkilega svo sem mér skilst að það eigi aðeins að senda þeim öldruðu nánast frágengið plagg og þá til umsagnar?

Miðað við þekkingu og reynslu þessa ágæta félagsskapar eins og Landssambands aldraðra er og Félags eldri borgara í Reykjavík, þar sem hinir mætustu menn eru við stjórnvöl, þá hefði ég talið eðlilegt að þessir aðilar tækju þátt í mótun og breytingu þeirra laga sem hér er verið að fjalla um vegna þess að það er í svo mörgum tilfellum, hæstv. ráðherra, sem aldraðir eru ekki hafðir í ráðum um mál sem snerta þá og ýmislegt er þokukennt um þeirra rétt og um skyldur þess opinbera og um skyldur ýmissa byggingaraðila sem jafnvel eru að selja öldruðum íbúðir, eins og ég gat um áðan, þar sem tilteknir eru ákveðnir þættir húsnæðisins svo sem hvers konar þvottavélar þar eru, hvers konar eldavélar og hvers konar ísskápar og fleira og fleira í þeim dúr sem síðan allt er svikið. Þegar aldraðir hafa svo ætlað að leita réttar síns, þá er það því miður of oft að þeir lenda bara á vegg. Þess vegna þarf mjög að vanda til endurskoðunar þessara laga. Og síðast en ekki síst ég vildi sérstaklega benda hæstv. heilbrrh. á að fjölmargir aðilar úti um allt land eru að selja öldruðum þjónustu sem ríkið borgar að mestu með einum eða öðrum hætti. Mér finnst það hafa mjög brugðist að ráðuneytið eða þessi nefnd sem á að vera til trausts og halds heilbrrn. og á að fylgjast með málefnum aldraðra --- mér finnst þjónustan sem hinir öldruðu fá og maður heyrir dæmi um á ýmsum öldrunarheimilum ekki vera í samræmi við væntingar, ég get ekki sagt við lög því að það er ekki nógu skýrt tekið hér fram og þar hefur þessi nefnd brugðist. Ég tel að það sé mjög veigamikið atriði að það sé alveg ljóst hvers konar þjónustu aldraðir eiga að fá sem koma inn á öldrunarheimili og ætla að ljúka ævikvöldinu þar. Ég óska eftir því að ráðherra upplýsi hverjir eru í þeirri nefnd sem er að endurskoða þessi lög.