Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 31. október 1996, kl. 11:44:16 (690)

1996-10-31 11:44:16# 121. lþ. 15.1 fundur 56#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur

[11:44]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki til þess að Alþingi sé einhver sérstakur staður þar sem menn eiga alltaf að vera brosandi. Ég er búinn að vera hér í rúm 20 ár og hef aldrei heyrt þá skilgreiningu á störfum Alþingis að það væri sérstaklega ætlast til þess að menn væru hlæjandi í ræðustól allan tímann.

Ég notaði ekki orðið gamaldags um hv. þm. eða hann væri fulltrúi hins liðna, það gerði hann sjálfur. Ég sagði ekkert um það. En ef hann kýs að nota þessi orð um sjálfan sig, þá er það hans mál. Ég minntist ekkert á þessi orð. Ég var hins vegar undrandi á því að það hefði ekki orðið nein afstöðubreyting hjá honum gagnvart Atlantshafsbandalaginu miðað við þær gífurlegu breytingar sem þar hafa orðið. Og ég er enn undrandi á því. Það er ekki rétt að halda því fram að Atlantshafsbandalagið sé að hóta því að beita kjarnorkuvopnum. Það hefur aldrei verið gert. Telur þingmaðurinn virkilega líklegt að Atlantshafsbandalagið muni gera það? Hefur Atlantshafsbandalagið gengið þannig fram? Þjóðir Atlantshafsbandalagsins hafa unnið að því að fækka kjarnorkuvopnum, hafa unnið að því að koma á banni við kjarnorkuvopnatilraunum þannig að þarna hefur gengið mjög í rétta átt. Ég tel að með starfi okkar innan þessara samtaka getum við best beitt okkur í málinu en ekki utan þeirra. Þar munu menn engin áhrif hafa.

Út af Schengen vildi ég segja það við hv. þm. að það liggur alveg ljóst fyrir að Danmörk, Svíþjóð og Finnland verða aðilar að Schengen. Ef Ísland og Noregur kjósa að standa utan við er norræna vegabréfasambandið hrunið og mun ekki starfa áfram. Þetta er ósköp einfalt. Viljum við það eða viljum við það ekki?