Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 31. október 1996, kl. 12:32:34 (700)

1996-10-31 12:32:34# 121. lþ. 15.1 fundur 56#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur

[12:32]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Sú ræða sem utanrrh. flytur er aðeins grundvöllur umræðu og kemur á engan hátt í veg fyrir að önnur mál séu tekin til umræðu, annaðhvort við þessa umræðu eða síðar. Hér er um svo umfangsmikil mál að ræða að þeim verða ekki gerð skil í stuttum ræðum og það er líka alltaf álitamál hvernig þessar umræður eiga að eiga sér stað. Mér er fullkomlega ljóst að margt af því sem við viljum ræða verður líka að gerast á vettvangi utanmrn. og með almennum umræðum í þjóðfélagi okkar. Má nefna það að umræða um mannréttindi t.d. á Íslandi og almennt í þjóðfélögum tengist mjög oft samskiptum við viðkomandi ríki. Hér á landi hefur ekki orðið mikil umræða um mannréttindamál í Indónesíu, en ætli það geti ekki verið m.a. vegna þess að við höfum átt afar lítil og nánast engin samskipti við það land. En samskipti annarra Norðurlandaþjóða eru mun meiri við það ríki og ferðalög norrænna ráðamanna til þess ríkis hafa orðið umræðuefni og vakið gagnrýni þannig að oft og tíðum tengist mannréttindaumræðan því að við höfum þekkingu á aðstæðum og höfum samskipti þannig að við séum fær að dæma um það, ekki aðeins á grundvelli þess sem kemur fram í alþjóðlegum fjölmiðlum, heldur jafnframt af eigin raun sem skiptir að sjálfsögðu afar miklu máli.