Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 31. október 1996, kl. 14:56:37 (717)

1996-10-31 14:56:37# 121. lþ. 15.1 fundur 56#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur

[14:56]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Já, ég bjóst nú við því að framsóknarmenn mundu skilja það mjög vel þegar ég sagðist hafa áhyggjur af norrænu samstarfi. Ég er alveg sammála greiningu hv. þm. á því að auðvitað er einn vandinn sem við er að glíma ósköp einfaldlega þetta nýjabrum sem er á aðild Svíþjóðar og Finnlands að Evrópusambandinu og það er skiljanlegt og eðlilegt upp að vissu marki að í það fer mikil orka, mikill tími og kraftar og jafnvel peningar að koma sér þar fyrir. Það er líka alveg rétt að Danir hafa á seinni árum, á nýjan leik, reynst mun jákvæðari og öflugri stuðningsmenn norrænnar samvinnu en þeir voru um skeið. Skyldi það ekki geta verið vegna þess að þeir eru búnir að uppgötva eftir alllanga veru í Evrópusambandinu að himnaríki er ekki sjálfkrafa í Brussel. Heimurinn frelsast ekki einfaldlega með því að ganga í Evrópusambandið. Það eru þrátt fyrir allt fleiri hlutir sem skipta máli, líka pólitískt og utanríkispólitískt. Danir hafa því á nýjan leik farið að meta meira en áður þætti eins og þá sem þeir eiga í samskiptum sínum og samstarfi við Norðurlönd. Ég hef aðallega áhyggjur af því að skipulagslega séð muni menn lenda og vera í miklum erfiðleikum í norræni samvinnu á meðan hún á að byggja á þessari landfræðilegu aðgreiningu, þessu landfræðilega skipulagi, að þar sé starfað í Evrópunefnd, nærsvæðanefnd og Norðurlandanefnd svo kostulegt sem það nú er að það skuli vera til Norðurlandanefnd í Norðurlandaráði í stað þeirrar málefnalegu uppbyggingar sem áður var þar sem tekið var á og starfað eftir málefnum og í málefnanefndum. En ég fagna því þó að um það er algjör samstaða hér að við hljótum að leggja mikla áherslu á og í raun og veru gefa norrænni, vestnorænni og artískri samvinnu forgang í þessari röð. Þannig er það. Ég held að því leyti til sé ástæða til að minna þá á og draga fram eitthvað sem við eigum hér sameiginlegt öll sem höfum verið að ræða málin í dag að um þetta er ekki ágreiningur.