Aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum

Fimmtudaginn 31. október 1996, kl. 16:45:38 (734)

1996-10-31 16:45:38# 121. lþ. 15.2 fundur 90. mál: #A aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum# (EES-reglur, vinnuvernd barna og ungmenna) frv., KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur

[16:45]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var vegna ummæla hæstv. félmrh. um eftirlitið og að hann ætlaði ekki að koma upp neinum sérsveitum til að fylgja lögunum eftir þá þarf sjálfsagt ekki neinar sérsveitir til. En ég er alveg sannfærð um að þörf sé á að efla eftirlit með því að vinnuverndarlögum sé framfylgt hver sem á að gera það og hvernig sem á að gera það. Ég minni á í því sambandi að stéttarfélögin hafa því miður ekki haft bolmagn til að standa vörð um réttindi unglinga á vinnumarkaði og ég vísa alveg sérstaklega til þeirra sem t.d. vinna í stórmörkuðum og er því miður oft verið að níðast á með lágu kaupi og réttindaleysi. Ég hef sjálf fengið dæmi um slíkt inn á mitt borð og þetta er einfaldlega með þeim hætti að stéttarfélögin ráða ekki við þetta. Það sama gildir um þá sem vinna á svörtum markaði og standa uppi algjörlega réttindalaus ef eitthvað kemur upp á. Það er ekki borgaður lífeyrissjóður, það eru ekki borguð félagsgjöld og það er jafnvel ekki gefið upp til skatts og ef eitthvað gerist eru unglingarnir í mjög vondum málum. Þetta er því miður svona, hæstv. félmrh. Það er of mikið um slíkt og á það sér ýmsar orsakir. Ég vil hvetja til þess að það verði hugað að meira eftirliti. Ég held að þörf sé á því í fleiri efnum sem lúta að stöðunni á vinnumarkaði og vinnuvernd, vinnuálagi, aðbúnaði og ýmsu fleiru. Við erum því miður svolítið á eftir öðrum þjóðum hvað þetta varðar. Þarna þurfum við að taka okkur á, m.a. til að bæta heilsu fólks og vinnuumhverfi þannig að ég vil hvetja til þess að eftirlit sé aukið.