Staða jafnréttismála

Mánudaginn 04. nóvember 1996, kl. 16:00:54 (751)

1996-11-04 16:00:54# 121. lþ. 16.95 fundur 69#B staða jafnréttismála# (umræður utan dagskrár), ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur

[16:00]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Herra forseti. Skýrsla hæstv. félmrh. sem lögð er til grundvallar umræðu þessari er um margt fróðleg lesning. En seint verður hún talin upplífgandi hvað þá ,,innspírerandi``. Það gneistar ekki af hæstv. ráðherrum þessa lands þegar jöfn staða kynjanna er til umræðu, hvorki í ræðu né riti. Ég spyr: Hvar er þunginn? Hvar er trúin á málstaðinn? Hvar er ástríðan sem fylgir því að berjast fyrir hugsjónum sínum? Ég lýsi eftir hv. þingmönnum af karlkyni á mælendaskrá hér í dag.

Eins og kunnugt er leggur framkvæmdaáætlun á sviði jafnréttismála þá ábyrgð á herðar ráðherrum að vinna að framgangi jafnréttis karla og kvenna á þeim málefnasviðum sem heyra undir ráðuneyti þeirra. Hversu vel ráðherrar sinna þessu hlutverki sínu hlýtur m.a. að endurspeglast í því hvort starfsfólk ráðuneytanna sinnir erindum af kostgæfni er varða framkvæmd áætlunarinnar. Í ljósi þessa vekja viðbrögð ráðuneytanna við beiðnum frá Skrifstofu jafnréttismála um skil verkáætlana og greinargerðir sérstaka athygli í skýrslu hæstv. félmrh. Svör bárust seint og illa ef þau bárust þá nokkuð. Ekki vitnar það um mikinn metnað ráðherra fyrir hönd sinna ráðuneyta né um þann pólitíska vilja sem þarf til að markmið framkvæmdaáætlunarinnar verði að veruleika.

Í viðauka skýrslunnar er greint frá umfjöllun nefndar Sameinuðu þjóðanna um framkvæmd Íslands á samningi um afnám allrar mismununnar gagnvart konum. Tillögur og tilmæli nefndarinnar um það sem betur mætti fara eru um margt athyglisverðar. Nefndin leggur t.d. til að ráðstafanir verði gerðar eins fljótt og auðið er til að tryggja að konur verði skipaðar í stöður þar sem ákvarðanir eru teknar og taki að sér forustuhlutverk hvarvetna í atvinnulífinu, t.d. með því að samþykkja áætlanir um sérstakar aðgerðir í þágu kvenna. Sérstakar aðgerðir í þágu kvenna, hæstv. ráðherra.

Það er kvennalistakonum mikið ánægjuefni að tillögur nefndarinnar gætu allt eins verið teknar beint upp úr stefnuskrá Kvennalistans. En stundum er það svo að ábendingar erlendra sérfræðinga þarf til að benda á það sem betur mætti fara í stjórnsýslunni og við pólitíska stefnumótun. Hvað sem því líður hvet ég ríkisstjórnina með hæstv. félmrh. í broddi fylkingar til að gera allar tillögur nefndar Sameinuðu þjóðanna að sínum.

Fram kemur í skýrslunni að að undanskilinni Iðntæknistofnun og Póst- og símamálastofnun er ekki kunnugt um að ráðuneyti eða opinber stofnun hafi gert jafnréttisáætlun í tengslum við framkvæmd starfsmannastefnu, með öðrum orðum að varla finnist ríkisstofnun á Íslandi þar sem starfsmannastefnu sem leggur jafnrétti til grundvallar hafi verið hleypt af stokkunum.

Herra forseti. Þessi staðreynd sýnir svo ekki verður um villst að hæstv. ráðherrar í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hafa enn ekki komist frá orðum til athafna þegar jafnréttismál eru annars vegar. Það er e.t.v. að bera í bakkafullan lækinn að minnast á hina víðfrægu viðhorfsbreytingu í þessu samhengi. Hvenær ætlar stjórnvöldum að skiljast að svokölluð viðhorfsbreyting framkallast ekki eins og kraftaverk, eins og óútskýranleg sending af himnum ofan? Nei. Hún framkallast vegna markvissra pólitískra aðgerða, aðgerða sem sýna að fullur pólitískur vilji er fyrir því að jafna stöðu kynjanna á Íslandi. Það dugar skammt að prenta fína bæklinga eins og fjmrn. gerði fyrr á þessu ári, Nýskipan í ríkisrekstri. Jafnréttismál. Hér er að finna ábendingar til stjórnenda í ríkisstofnunum um leiðir til að ná fram jafnrétti kynjanna. Ábendingarnar eru í sjálfu sér góðra gjalda verðar. En hvernig ætlar hæstv. fjmrh., sem ber ábyrgð á útgáfu þessa bæklings, að tryggja það að kynjum verði ekki mismunað? Hvernig skal það tryggt þegar stjórnendur opinberra fyrirtækja hafa ekki einu sinni reglur til að styðjast við til að ná fram jafnrétti kynjanna? Hvernig hyggst hæstv. fjmrh. ná niður kynbundnum launamun á meðan launaleynd viðgengst? Launaleynd sem þjónar fyrst og fremst hagsmunum karlmanna. Það verður ekki gert með vinsamlegum tilmælum og frómum óskum um að menn taki sig á, sýni jafnréttismálum áhuga og taki til hendinni á eigin vinnustað. Það þarf beinar tillögur til úrbóta, áætlanir, stuðning, starfsmenn og peninga til að framfylgja stefnunni. En þá verða menn líka að gera sér grein fyrir því að starfsmatið eitt og sér dugar ekki til. Það þarf hvetjandi aðgerðir og það þarf að tala um kynjakvóta, hvort tveggja aðgerðir sem tryggt hafa raunverulegt jafnrétti í öðrum löndum.

Herra forseti. Enn er það svo í umræðum um jafnréttismál hér á landi að menn reyna að kaupa sér frest með því að segja að allt sé þetta á réttri leið, hér gildi jafnréttislög og þetta hljóti nú allt að fara að koma. Slíka drauga verður að kveða niður jafnframt því að ráðast til atlögu við drekana í kerfinu, í hvaða gervi sem þeir kunna að leynast.