Opinber fjölskyldustefna

Þriðjudaginn 05. nóvember 1996, kl. 16:12:46 (813)

1996-11-05 16:12:46# 121. lþ. 17.7 fundur 72. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., SJS
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[16:12]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þetta er athyglisverð og þörf umræða sem hér fer fram. Það er mál til komið að við karlpeningurinn eins og það var orðað fyrr í dag blöndum okkur í hana. Það hefur að vísu vænkast vor hagur því að þegar þau ummæli voru látin falla við upphaf umræðunnar að þingmenn og þá einkum karlmenn sýndu þessu máli áhugaleysi, þá mun ég hafa verið einn karlkyns í salnum fyrir utan hæstv. félmrh., sem þrátt fyrir grínþætti sjónvarpsins er nú óumdeilanlega enn þá karlmaður, og hæstv. forseta. Að öðru leyti voru konur hér til staðar til þess að ræða þetta mál. Það má segja svipað og sagt var í gær þegar jafnréttismál bar á góma að það sé þó ekkert einkamál þeirra og enn síður þegar fjölskyldumál eiga í hlut því að enn er það svo að karlpeningurinn er upp undir helmingur mannkynsins og verður sjálfsagt a.m.k. fyrst um sinn nema þá framfarir í líftæknilegum efnum geri þennan hluta mannkynsins óþarfan eins og sumir óttast. En það er önnur saga.

Ég held að það sé alveg tilefni, herra forseti, til að ræða þessi mál lítillega við Framsfl. eins og hér hefur verið gert upp á síðkastið og þá m.a. í ljósi kosningaloforða þess flokks. Það hefði nú verið betur að t.d. hv. síðasti ræðumaður hefði haldið þessar ábyrgðarþrungnu ræður um vanda ríkissjóðs og öll þau ósköp í kosningabaráttunni á Reykjanesi en ekki geymt það fram yfir kosningar, í staðinn fyrir að ætla að lofa öllum öllu eins og þá var gert, ,,Fólk í fyrirrúmi`` og ekki síst unga fólkið og fjölskyldurnar sem átti aldeilis að gera hamingjusamt og rétta þeirra hlut. Nú er þetta allt orðið svona óskaplega erfitt og mikið vesen og baks með ríkissjóð og að verður að hafa það í huga í öllum tilvikum að sagt er. Svona eru hlutirnir fljótir að breytast. Og gaman verður að heyra hvenær Framsókn skiptir um og snýr plötunni aftur við, hvort það verður hálfu ári eða ári fyrir næstu kosningar sem fólkið færist aftur fram í skipinu og kemst í fyrirrúmið.

[16:15]

Staðreyndin er sú, herra forseti, að fögur orð og veruleiki fara ekki alltaf saman og það á við um þetta plagg. Það má vissulega velta því fyrir sér, til hvers er það að vera að samþykkja einhvern pappír af þessu tagi ef gjörðirnar vísa svo meira eða minna í öfuga átt? Ég leyfi mér að fullyrða að þjóðfélagið hafi á sl. þremur til sex árum því miður verið að þróast á fullri ferð í fjölskyldufjandsamlega átt. Það hefur gerst í gegnum vaxandi launamun í landinu, það hefur gerst í gegnum vaxandi fátækt, það hefur gerst í gegnum óhagstæðar breytingar í skattkerfinu, það hefur gerst í gegnum tekjutengingu margs konar bótaliða, það hefur gerst í gegnum hertar endurgreiðslukröfur námslána o.s.frv. Þeir sem tala hér, bæði af hálfu núv. ríkisstjórnar og síðustu ríkisstjórnar ættu því að þora að horfast í augu við eigin verk og eigin gerðir, t.d. vinir mínir í Alþfl. Ætli það sé ekki þannig að það sé ýmislegt í erfðagóssi eins og er í tísku að kalla það í þeim flokki síðustu ríkisstjórnar sem passi ekki mjög vel við hin fögru fyrirheit hér, svo sem sjúklingaskattarnir, skólagjöldin, hertar endurgreiðslur námslána og fleira af því tagi. Staðreyndin er auðvitað sú að það eru verkin sem sýna merkin í þessum efnum en ekki einhver fögur orð á blaði. Það er óhjákvæmilegt að horfast í augu við það, því miður, að illa er búið að fjölskyldunum á Íslandi í dag, sérstaklega ungum barnafjölskyldum með meðaltekjur eða lægri. Það er til skammar í þessu ríka þjóðfélagi hversu illa er búið að þeirri kynslóð sem nú er að taka á herðar sínar hitann og þungann af uppeldi barna og ábyrgð í þjóðfélaginu. Það er til skammar. Eitt versta samfélagsmeinið á Íslandi í dag er aðstöðumunur kynslóðanna sem er mjög erfiður og menn sjá ekki bara á milli foreldra og barna heldur jafnvel innan systkinahópa þar sem kannski 5--10 ár skilja á milli. Það er kynslóðin sem kemur til sögunnar, fer út í lífið eftir að verðtrygging er komin á alla skapaða hluti, eftir að raunvextir eru orðnir háir, eftir að búið er að herða til mikilla muna endurgreiðslur lána t.d. bæði í húsnæðislánakerfinu og námslánakerfinu og þar fram eftir götunum.

Er þessi tillaga einhver vegvísir í þessum efnum? Ég leyfi mér því miður að gefast um það. Góðra gjalda vert sem það getur verið að menn reyni að móta sér einhverja opinbera fjölskyldustefnu ef farið er þá eftir henni. Þetta mega ekki verða innstæðulaus orð eins og loforð Framsóknar fyrir kosningar. Þá er það gagnslaust að vera að samþykkja svona pappír. Ég vildi alveg eins sjá það að við værum að ræða 6--8 konkret atriði sem vörðuðu fjölskyldurnar í landinu beint og hrinda þeim í framkvæmd en hentum þessu plaggi í staðinn. Ef við væru að tala um það að draga t.d. úr endurgreiðslukröfum námslánanna, ef við værum hér að tala um það að setja þak á jaðarskatta þannig að það væri aldrei farið hærra en í t.d. 55% í þeim efnum, værum að tala um slíka hluti, eins og að aðstoða þær fjölskyldur sem mestan kostnað bera vegna skólagöngu barna og er eitt af því óréttlæti í landinu sem hrópar í himininn hvernig búið er t.d. að fjölskyldum í þeim byggðarlögum þar sem ekki eru framhaldsskólar og mörg hundruð þúsund króna kostnaður leggst á fjölskyldurnar á hverjum vetri út af hverjum ungling sem þarf að fara að heiman frá sér í framhaldsskóla. Þá værum við að ræða um eitthvað sem virkilega skiptir máli og varðar hagi fjölskyldnanna í landinu beint en við gerum það ekki því að hér eru menn að reyna að skreyta sig með fallegum orðum í tillögu sem ríkisstjórnin ber fram og að vísu er búið að finna út því að það er búið að beygja --- ég segi nú ekki með leyfi þínu, herra forseti, svínbeygja hæstv. félmrh. til þess að taka út úr þessari tillögu hluti sem menn bundu þó einmitt vonir við eins og sjóð um fjölskylduvernd. Þá væru menn að ræða hluti sem skiptu meira máli.

Herra forseti. Ég tel að orðalag tillögunnar sé gallað. Ég tel t.d. að ekki eigi að orða þetta eins og gert er í 1. mgr. í upphafi tillögunnar að Alþingi eigi að álykta að ríkisstjórnin móti fjölskyldustefnu. Þetta á að vera þannig að Alþingi ályktar að móta beri eða móta skuli fjölskyldustefnu og Alþingi getur síðan eftir atvikum falið ríkisstjórninni að annast einstaka þætti þeirrar framkvæmdar. Það er niðurlægjandi fyrir Alþingi að láta slíkt orðalag standa. Hér er verið að taka ákvörðunina, móta stefnuna í grófum dráttum en ríkisstjórninni má síðan eftir atvikum fela að útfæra þá hluti og annast framkvæmd einstakra þátta. Sama á t.d. við um þau meginmarkmið eða þær meginforsendur sem taldar eru upp í I. kafla ályktunarinnar. Þar tel ég að vanti a.m.k. einn þátt sem á í mínum huga tvímælalaust að vera ein af útgangsforsendunum í þessum efnum og það er að menn setji þarna inn gildi samvista foreldra við börn sín almennt sem mikilvæga grundvallarforsendu þess að vel sé búið að fjölskyldum í einu landi. Ekki er minnst á það þarna að vinnuþrældómurinn á Íslandi og aðrar aðstæður valda því að samvistir foreldra við börn eru langminnst á öllum Vesturlöndum og því þarf að breyta því menn munu aldrei ná árangri í þessum efnum nema það sé virt og viðurkennt að það þarf að búa þannig að öllum fjölskyldunum í öllu tilliti að menn geti verið verið í eðlilegum samvistum við börn sín.

Margt fleira, herra forseti, mætti nefna ef tíminn leyfði en hins vegar er mjög athyglisvert að dragbíturinn mikli í þessu máli sem er og hefur verið er fjarstaddur hér í umræðunni. Ég vek athygli á því, herra forseti, að lokum að það er enginn einasti þingmaður Sjálfstfl. í salnum.