Opinber fjölskyldustefna

Þriðjudaginn 05. nóvember 1996, kl. 17:05:34 (822)

1996-11-05 17:05:34# 121. lþ. 17.7 fundur 72. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[17:05]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir jákvæðar undirtektir við þessa tillögu. Ég er mjög feginn að stjórnarandstaðan skuli vilja greiða fyrir því að hún fái afgreiðslu en tek það jafnframt fram að við höfum meiri hluta í þinginu og það er út af fyrir sig ekki stjórnarandstöðunnar að ákvarða það ein hvort mál nái fram að ganga. En ég er mjög ánægður með að stjórnarandstaðan tekur jákvætt undir þessa tillögu og ég vonast eftir því að hún fái hér greiða afgreiðslu.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon vitnaði til upphafsorða í þáltill. sem hann taldi vera móðgun við Alþingi, þar sem segir: ,,Alþingi ályktar að ríkisstjórnin móti opinbera fjölskyldustefnu ...`` o.s.frv. Þessi orð munu vera arfur frá fyrri tillögum sem samdar hafa verið. En ég ber hina fyllstu ábyrgð á þessu orðalagi og ég lít ekki svo á að það sé nein móðgun við Alþingi. Það sem ég er að biðja um er að Alþingi heimili mér eða ríkisstjórninni að vinna eftir þeim markmiðum sem hér eru sett fram.

Ég tel að þessi tillaga sé nákvæmari, hún sé markvissari en sú tillaga sem fyrirrennari minn bar fram og þau markmið sem hér eru sett fram eigi öll að nást. Það er mikill misskilningur ef menn halda það að samstarfsflokkurinn, Sjálfstfl., hafi rekið mig til að breyta þessari tillögu. Ég breytti henni á einn veg fyrir orð sjálfstæðismanna, eða eftir að hún hafði verið til meðferðar í þingflokki sjálfstæðismanna, og það var ekki um fjölskyldusjóði heldur var það um að ég hafði áhuga á að setja upp sameiginlegt fjölskyldu- og jafnréttisráð og ætlaði með því að efla þessa stofnun en þingflokkur sjálfstæðismanna felldi sig betur við að stofnað væri sérstakt fjölskylduráð. Og ég tek það þá ekkert nærri mér. En þarna kom ég til móts við Sjálfstfl. eða meiningarmunur var milli mín og Sjálfstfl. (Gripið fram í: Þú hefur þá verið sjálfur á móti sjóðnum?) Ég vitna til að í síðasta stjörnumerkta liðnum í tillögunni er einmitt fjallað um fjölskyldurannsóknir.

Menn hafa spurt hér: Mun tillagan breyta nokkru? Verður nokkuð unnið eftir þessu? Ég vil meina að við séum þegar byrjuð að vinna að þessum markmiðum og ég get nefnt í stikkorðastíl nokkur atriði: Það er verið að vinna að endurbótum í húsnæðismálum, í atvinnumálum, um atvinnuleysistryggingar, um vinnumiðlanir.

Skuldir heimilanna vaxa, það er sorgleg staðreynd. Þær urðu reyndar ekki til í minni tíð í félmrn. en þær hafa vaxið í minni tíð, það skal viðurkennt. En stofninn að þeim var til fyrir mína tíð. T.d. þeir sem fengu húsbréf sem greiðsluerfiðleikalán, þeir eru undantekningarlítið eða undantekningarlaust komnir í vandræði. (Gripið fram í: Allir?) Mikið til. Þeir tóku 4 milljarða. Einn af þeim fór í afföll, þeim nýttust þrír og nú sitja þeir uppi miklu verr settir heldur en áður en þeir fengu þessa fyrirgreiðslu sem vafalaust var gerð af góðum hug. Það var farið að frysta húsnæðislán 1993. Það var fryst til þriggja ára. Á mitt borð kom í morgun beiðni. Nú eru þeir sem fengu þessa frystingu ekki búnir að rétta sig af og þurfa lengri frystingu. Ég vek athygli á því að af þeim sem leituðu til Ráðgjafarstofunnar, af 317 fyrstu, var fjórðungurinn sem bjó í félagslegum eignaríbúðum, sem eru þó ekki nema 10% af íbúðarhúsnæði á landinu. Það gefur manni til kynna að það þurfi að endurbæta það kerfi.

Það hefur verið opnuð Ráðgjafarstofa um fjármál heimilanna. Höfuðstóll meðlaga er orðinn umsemjanlegur. Skattaskuldir aðrar en vörsluskattar eru orðnar umsemjanlegar. Og réttaraðstoð er veitt einstaklingum til að leita nauðasamninga. Það er bæði verið að vinna að því í viðskrn. og félmrn. að reyna að komast út úr þessu ábyrgðafargani þriðja aðila eða ábyrgðarmannafargani. Ég mun ásamt viðskrh. leita til lánastofnana með beiðni um að setja niður starfshóp til þess að kanna hvort ekki sé tiltækilegt að koma upp upplýsingamiðstöð um skuldir. Í þessari upplýsingamiðstöð hugsa ég mér að skuldarar geti farið og fengið vottorð um hverjar þeirra skuldir séu, farið með það eins og veðbókarvottorð í bankana eða lánastofnanir og fengið lán út á lánasögu sína ef þeir geta sannað að þeir eigi fyrir skuldum. Ef bankinn hins vegar telur ekki svo vera og þeir neyðast til að leita til ábyrgðarmanna að þá verði ábyrgðarmönnunum gert ljóst hvernig þeir séu settir og bankinn kynnir sér hvernig ábyrgðarmennirnir séu settir. Ég held við verðum að vinna okkur út úr þessu með einhverjum svona hætti fremur en að setja lög sem banna fortakslaust ábyrgðir. Ef við gerðum það þá værum við raunverulega að loka bankakerfinu fyrir töluverðum hópi manna sem ekki á fyrir skuldum en verður einhvern veginn að draga fram lífið. Og það kann að vera að ég vildi heldur skrifa upp á fyrir mína nánustu, ef þeir væru illa settir, heldur en að sjá þá fara í gjaldþrot. Ef ábyrgðarmannakerfið yrði afnumið alfarið þá gæti farið svo að torvelt yrði um námslán. Nefnd á vegum viðskrn. er að skoða þetta mál einnig.

Ég tel að það sé mjög nauðsynlegt að setja þak á innheimtukostnað lögfræðinga og ég tel líka að þurfi að breyta greiðslumatinu sem lagt er til grundvallar við lánveitingar. Ég held að það sé rangt hugsað eins og það er unnið núna. Ég held að þurfi fyrst að finna út hvað viðkomandi fjölskylda þarf til nauðþurfta, til þess að draga fram lífið og það sem út af stendur af tekjunum þegar hún er búin að fá fyrir nauðþurftum geti farið í húsnæðiskaup eða aðra eyðslu.

Hugmyndin um foreldraorlof er til meðferðar í félmrn. Við erum ekki skyldug til að taka hana upp en það er verið að kanna það. Foreldraorlofið gengi þannig að foreldrar ættu rétt á allt að þriggja mánaða leyfi frá störfum, misstu sem sagt ekki störf sín þó þeir tækju sér frí í þrjá mánuði, á fyrstu átta árum barnsins. Þetta er nokkuð flókið mál. Það er ekkert sem segir að það þurfi að greiða þetta. Þetta getur verið launalaust leyfi en það er líka hugsanlegt að taka þetta inn í tryggingar. En þetta er til meðferðar í ráðuneytinu. Heilbrrh. hefur boðað frv., ef ég veit rétt, um fæðingarorlof fyrir feður. Ég man ekki betur en að ítrekað hafi hún látið það frá sér fara að það væri í undirbúningi í heilbrrn.

Ég hef í undirbúningi og hef reyndar látið það frá mér fara fyrr, og látið í ljós áhuga á því að fullgilda samþykkt ILO um starfsfólk með fjölskylduábyrgð. Ef aðilar vinnumarkaðarins koma sér ekki saman um það mjög fljótlega þá held ég að sé einboðið að ganga bara í það að fullgilda þessa samþykkt.

[17:15]

Ég tel að það þurfi að setja miklu skýrari lög um réttindi og skyldur sambúðarfólks. Það er eitt af því sem vantar í þjóðfélaginu. Sambúðarfólk getur staðið uppi réttlaust einn góðan veðurdag við missi sambýlings. Líka er nauðsynlegt að skyldur fylgi. Þetta er orðið viðurkennt fjölskylduform, mikið tíðkað og ég held að það sé mjög nauðsynlegt að setja lög um þetta.

Varðandi málefni nýbúa þá höfum við reynt að styrkja nýbúafræðslu frá félmrh. Ég vonast eftir því að geta á morgun svarað fyrirspurn um flóttamenn sem líka er skylt þessu efni. Við tókum á móti nær þremur tugum flóttamanna í sumar og móttaka þeirra hefur tekist með miklum ágætum. Það er Ísfirðingum til mikils sóma hvernig þeir hafa staðið að því máli öllu og það er virkilega gleðilegt hvernig það mál hefur útleiðst. Félmrn. stendur því ásamt Sókn og Reykjavíkurborg fyrir námskeiðum fyrir heimilishjálp sem líka er fjölskyldumál og í takt við það gera öldruðum kleift að dvelja heima hjá sér sem allra lengst. Það er mikil eftirspurn eftir heimilishjálp, það vantar stórlega fólk í heimilishjálp. Einhverra hluta vegna hefur verið torvelt að fá það hér í Reykjavík. (Gripið fram í: Ætli það séu ekki launin?) Það eru 400 kr. á tímann og það er ekki verra heldur en ýmislegt annað sem fólk verður að sæta. Þetta er í samstarfi við Sókn og Reykjavíkurborg og verður vonandi framhald á því.

Það er verið að reyna að sinna málefnum fatlaðra. Þrátt fyrir aðhaldsamt fjárlagafrv. þá er hækkun til málefna fatlaðra um 190 millj. kr. frá síðustu fjárlögum. T.d. hækkar frekari liðveisla um 25%. Vímuefnavandinn var til umræðu síðast í morgun í ríkisstjórn. Þar var kynnt frv. um áfengis- og vímuvarnaráð. Það er samið af starfshópi sem settur var upp af dómsmrh., félmrh., heilbrrh. og menntmrh. Á næsta ári verður opnað nýtt meðferðarheimili fyrir unga vímuefnaneytendur væntanlega í Öxnadal. Bætur aldraðra og öryrkja hafa ekki verið skertar, ég vil leggja sérstaka áherslu á það, nema þeir hafi talsverðar tekjur. Þeim sem lægstar tekjur hafa er hlíft. Lægstu laun í landinu eru ekki nema 50.000 kr. Atvinnuleysisbæturnar eru rúmar 50.000 kr. Ég hygg að helmingurinn af sauðfjárbændum í mínu kjördæmi hafi í mánaðartekjur undir 75.000 kr. Tekjutrygging aldraðra og öryrkjar er ekki skert nema þeir séu með yfir 75.000 kr. í tekjur. Ég held að það sé eðlilegra að skerða tekjutryggingu fólks sem er með einhverjar töluverðar tekjur aðrar heldur en að halda fólki í þeirri klemmu sem það er í á allra lægstu tekjunum.

Menn hafa nefnt í umræðunni að Framsfl. hélt því fram fyrir síðustu kosningar að hann vildi hafa fólk í fyrirrúmi. Það vill Framsfl. enn. En við sögðumst aldrei að við ætluðum að gera allt fyrir alla. Það er mikill misskilningur. Og við sögðumst aldrei ætla að stefna að stórauknum ríkishalla. Það er mikill misskilningur.

Orð okkar úr kosningabaráttunni voru nefnilega ekki innstæðulaus eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon vildi halda fram. Það er ákvarðað í stjórnarsáttmálanum að lögin um Lánasjóð íslenskra námsmanna verði endurskoðuð á starfstíma ríkisstjórnarinnar og það verður að sjálfsögðu gert.

Herra forseti. Tími minn er á þrotum. Ég þakka enn og aftur fyrir þessa umræðu.