Fíkniefnaneysla barna

Miðvikudaginn 06. nóvember 1996, kl. 14:21:16 (855)

1996-11-06 14:21:16# 121. lþ. 19.1 fundur 68. mál: #A fíkniefnaneysla barna# fsp. (til munnl.) frá félmrh., SvG
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur

[14:21]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Það væri fróðlegt að tína það saman hversu oft hefjast umræður um fíkniefnavanda á Alþingi og hversu oft þær hafa byrjað hér á undanförnum árum og hversu margar fallegar og góðar ræður hafa verið fluttar. Fyrir það bera að þakka. Á sama tíma liggur það fyrir og verður að segja það alveg eins og það er, að tök stjórnvalda á þessu máli hafa stundum verið fálmkennd. Þar er mér efst í huga sú ákvörðun stjórnvalda að leggja niður meðferðarheimilið á Tindum en ákveða í staðinn að stofna ný heimili sem var auðvitað nauðsynlegt að gera úr því Tindar höfðu verið lagðir niður, þ.e. á Stuðlum og svo nýtt heimili núna norður í Eyjafirði.

Ég tel að það átak sem nú á að efna til í grunnskólum Reykjavíkur með ráðuneytinu og borgaryfirvöldum sé afar jákvætt í þessu sambandi. Ég nefni það hér af því það hefur verið nefnt við (Forseti hringir.) mig af aðstandendum fíkniefnanotenda, ungra barna, að alþingismenn setji sér það í umfjöllun um þessi mál að tala um úrræði sem raunverulega taka á vandanum.