Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1995

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 11:51:15 (895)

1996-11-07 11:51:15# 121. lþ. 20.1 fundur 65#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1995# (munnl. skýrsla), ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[11:51]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs til þess að fjalla um fáein atriði sem ég tel þó grundvallaratriði í umræðunni um stefnu og rekstur Byggðastofnunar.

Atvinnuleysi kvenna og einhæf vinna á ríkan þátt í því að konur eru í meiri hluta þeirra sem flytjast af landsbyggðinni. Störfum hefur fækkað verulega og fátt komið í staðinn. Konur búa því víða við óvissu um eigin framtíð, lág laun og stopula vinnu. Því þarf að beina sjónum sérstaklega að atvinnusköpun í þágu kvenna.

Um það er stjórn Byggðastofnunar Kvennalistanum greinilega ósammála. Ársskýrsla síðasta árs og skýrsla Ríkisendurskoðunar, sem mér skilst reyndar að einhverjir meinbugir séu á að ræða hér, frá því í september bera þess glöggt merki að enn virðast ráðandi gamaldags viðhorf til atvinnuþátttöku kvenna og til þeirra verkefna sem vert þykir að styrkja og lána til. Á því ber stjórn Byggðastofnunar og ríkisstjórn á hverjum tíma fulla ábyrgð.

Árangur þeirrar stefnu og starfsaðferða sem Byggðastofnun hefur fylgt hefur ekki verið metinn reglulega og ekkert innra matskerfi verkefna virðist í gangi hjá stofnuninni. Það geta varla talist góð vinnubrögð. Þó hefur margt breyst í starfi stofnunarinnar á síðustu árum og liðin tíð að því er virðist að Byggðastofnun fái bein fyrirmæli um að verja fé í tiltekna atvinnuvegi. Ekki þarf annað en nefna loðdýra- og fiskeldisævintýrin til þess að vekja upp óstjórnar- og spillingardraugana.

Hin pólitíska ábyrgð stjórnar Byggðastofnunar í gegnum tíðina er mikil og hún hefur í raun aldrei þurft að standa skil gerða sinna gagnvart almenningi með því að færa rök fyrir ráðstöfun almannafjár eins og skattgreiðendum þessa lands hafi hreinlega ekki komið það við og því haft lítið aðhald um vinnubrögð.

Að síðustu ætla ég að leyfa mér að hugleiða hvort öðruvísi hefði verið að málum staðið hjá Byggðastofnun í gegnum tíðina ef farið hefði verið að ráðum kvenna og Kvennalistans. Ég fullyrði að það hefði ekki riðið Byggðastofnun að fullu ef hið háa Alþingi hefði hleypt nokkrum konum inn í stjórnina. Skýrsla Ríkisendurskoðunar er staðfesting þess að reynslu og lífssýnar kvenna er þörf í Byggðastofnun eins og annars staðar í samfélaginu. Telji menn svo ekki vera má allt eins leggja starfsemi Byggðastofnunar niður í núverandi mynd.