Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1995

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 12:52:25 (915)

1996-11-07 12:52:25# 121. lþ. 20.1 fundur 65#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1995# (munnl. skýrsla), HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[12:52]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Ekki fólst það í orðum mínum að ég væri að væna formann stjórnar Byggðastofnunar um að hann hafi ekki farið að lögum. Ég var að reyna að vekja athygli á að margir aðilar eru að veita styrki og lán og taka ákvarðanir um fjárveitingar. Hv. þm. nefndi Alþingi, Byggðastofnun er einn þeirra aðila og hinir ýmsu sjóðir. En þessar ákvarðanir, margar hverjar, eru byggðar á því að veita út til kjördæma og síðan er leitað verkefnanna. Það sem ég var að reyna að vekja athygli á var að snúa þessu við.

Aftur komum við að því sama að byggðastefnan er ekki nógu skýr, hugsanlega vegna þess að við höfum ekki haft pólitískan kjark til að ákveða hvar í landinu við treystum okkur til að verja byggð og verja hana með öllum tiltækum ráðum. En það er líka ástæða til að nefna að ýmislegt úr ákvörðunum Byggðastofnunar og Alþingis skapar grundvöll að blómlegri byggð sums staðar á landinu t.d. á Selfossi, á Héraði, í Skagafirði, Eyjafirði o.s.frv. En meginatriðið er að við þurfum að skerpa byggðastefnuna til að vita nákvæmlega hvert við ætlum að halda.