Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1995

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 12:53:56 (916)

1996-11-07 12:53:56# 121. lþ. 20.1 fundur 65#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1995# (munnl. skýrsla), EgJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[12:53]

Egill Jónsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki ágreiningur milli mín og hv. síðasta ræðumanns um að gagnlegt væri að skerpa byggðastefnuna. Það er eðlilegt að það komi fram vegna þess að hann var sérstaklega að tala um smáverkefni. Það eru einmitt þau sem við höfum lagt rækt við að lána til á síðasta ári og gengið kannski nokkuð langt fram í þeim efnum í sumum tilvikum. Ég vil líka vekja athygli á að Ríkisendurskoðun kemst að sömu niðurstöðu og hv. ræðumaður, þ.e. að það eigi að fækka þeim stofnunum sem veita styrki. En hvað segir Ríkisendurskoðun? Hún segir að þá sjóði eigi að færa inn í Byggðastofnun. Eftir skýrsluna og eftir þessa yfirferð kemst Ríkisendurskoðun að því að trúverðugast sé að vista þessa starfsemi þar. Ég held því að erfitt sé að finna meira traust frá Ríkisendurskoðun en felst einmitt í þessu. En slíkum áherslum hafa menn gleymt í umræðunni. Það er fjarri því að þetta eigi sérstaklega við hv. síðasta ræðumann. En ég gat ekki annað en gripið þetta einstaka tækifæri til að sýna hvað mikið traust felst í skýrslu Ríkisendurskoðunar á fjársýslu Byggðastofnunar.