Sjávarútvegsskóli Sameinuðu þjóðanna

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 13:44:41 (922)

1996-11-07 13:44:41# 121. lþ. 20.95 fundur 78#B Sjávarútvegsskóli Sameinuðu þjóðanna# (umræður utan dagskrár), KH
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[13:44]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Málið snýst ekki um venjulegan skóla og alls ekki um venjulegan háskóla með kennara og fyrirlestrasal á einum stað. Það snýst í raun ekki um það hvort Sjávarútvegsskóli Sameinuðu þjóðanna verði á Akureyri eða í Reykjavík. Það snýst um það hvort þessi skóli verði hér á landi eða í einhverju öðru landi. Það er bæði heiður og viðurkenning fyrir íslenska fræðimenn og vísindamenn að alþjóðleg matsnefnd sérfræðinga með áratuga reynslu á þessu sviði skuli hafa komist að þeirri niðurstöðu að Íslendingar væru vel í stakk búnir til að hafa þessa starfsemi með höndum. Að vísu telur hún nokkuð á skorta í tveim greinum, þ.e. fiskeldi og umhverfisfræði, að þekking okkar í þeim efnum gæti nýst þróunarlöndunum og má það vera okkur umhugsunarefni.

Hins vegar eru aðstæður hér fyllilega frambærilegar að því er varðar aðra þætti og rannsóknir eru hér á heimsmælikvarða, t.d. hjá Hafrannsóknastofnun og Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins. Ef af því verður að þessi skóli verði hér á landi sem allir hljóta að vona, munu íslenskar stofnanir og fyrirtæki leggja saman kraftana svo nemendur hafi aðgang að því besta hér á landi á hverju sviði. Þar mun Háskólinn á Akureyri koma inn í svo og helstu sjávarútvegsfyrirtæki á Akureyri. Það er fyllilega í samræmi við niðurstöður hinnar alþjóðlegu matsnefndar og hvorki er ástæða til að tortryggja niðurstöður né athuganir og undirbúningsstarf sem unnið hefur verið. Það eru ýmsir möguleikar fyrir hendi að byggja upp og stuðla að alþjóðlegu samstarfi hér á landi vegna þeirra aðstæðna sem hér eru og nægir að minna á góðan árangur Jarðhitaskólans í því efni. Sjávarútvegsskóli Sameinuðu þjóðanna er liður í áframhaldandi þróun og samstarfi á því sviði og því ber að fagna. Menn skyldu athuga að skæklatog um höfuðstöðvar gæti spillt fyrir framgangi þessa máls.