Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 16:44:56 (959)

1996-11-07 16:44:56# 121. lþ. 20.2 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[16:44]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er sannarlega sniðug aðferð sem hæstv. félmrh. hefur komið sér upp. Hún er sú að velta á Atvinnuleysistryggingasjóð ýmsum algjörlega óskyldum verkefnum og svara gagnrýninni svo með því að ef að sjóðurinn eigi ekki fyrir þessu þá borgi ríkissjóður. Hverslags vitleysa er þetta? Veruleikinn í málinu er sá, hæstv. forseti, að verkalýðshreyfingin samdi um peningana í starfsmenntun á sínum tíma. Samdi um þá. Hæstv. félmrh. er núna enn þá einu sinni á sínum starfsferli að vega að samningum sem gerðir hafa verið við verkalýðshreyfinguna. Og það á að gera eins og hér hefur verið lýst. Þetta sýnir auðvitað lítilsvirðingu við verkalýðshreyfinguna en fyrst og fremst botnlausa forakt á öllu því sem heitir starfsmenntun og verkmenntun í landinu. Það er ótrúlegt hjá ríkisstjórn sem stundum í ræðuhöldum skreytir sig með því að menn vilji efla verkmenntun og efla starfsmenntun og tengja hana við skólana og að í framhaldsskólunum þurfi að vera stóraukin verkmenntun. En þegar verkalýðshreyfingin í landinu knýr fram fjármuni, örlitlar upphæðir, til styrkja og t.d. til stuðnings fiskverkafólkinu, sem hefur fengið stuðning af þessum peningum til starfsmenntunar í atvinnulífinu og menn hafa verið að fagna þessu, t.d. í frystihúsunum allt í kringum landið, verkalýðshreyfingin hefur verið að efna til funda og jafnvel hátíða í Háskólabíói til að fagna þessum mikla áfanga í verkmenntun á Íslandi, hvað gerir þá hinn framsækni félmrh. Framsfl.? Hann hendir verkefninu á Atvinnuleysistryggingasjóð. Þetta er ekki boðlegt, hæstv. forseti.

Ég ræddi í morgun við forseta Alþýðusambands Íslands. Hann lýsti miklum áhyggjum yfir þessu máli og það hefur hann einnig gert við hæstv. félmrh. Og forseti Alþýðusambands Íslands er enn að gera sér vonir um það að hæstv. félmrh. sjái að hann er að fara villur vega í þessu máli og að þessi grein verði strikuð út úr frv.