Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 18:22:20 (983)

1996-11-07 18:22:20# 121. lþ. 20.2 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[18:22]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Eins og heyra mátti af þessum lestri hæstv. forseta af ræðustóli, þá eru frumvörpin að streyma frá ríkisstjórninni þannig að myndin í ríkisfjármálunum fer að skýrast. Ég fagna því að frumvörpin koma nú sæmilega snemma fram þannig að það gæti bent til þess að það tækist að ljúka þingi á þeim tíma sem áætlað er fyrir jól.

Það væri ástæða til þess að fara nánar ofan í þá umræðu sem orðið hefur um málefni fatlaðra en þar sem ég sit í félmn. ætla ég að geyma mér það þar til við höfum farið yfir þau mál í nefndinni.

Ég verð að segja það, hæstv. forseti, að ég sakna þess mjög að hæstv. menntmrh. skuli ekki hafa komið í ræðustólinn til þess að skýra fyrir okkur það sem felst í 2. gr. frv. Mér finnst hann svo sannarlega skulda okkur skýringar vegna þess að það er sannast að segja erfitt að átta sig á því hver hugsunin er að baki þessari grein og í rauninni erfitt að trúa því að ríkisstjórnin ætli sér að leggja þennan skatt á þá nemendur sem erfiðast eiga í skólakerfinu því eins og ég sagði í fyrri ræðu minni, þá eiga skólarnir auðvitað margvísleg ráð til þess að taka á þeim nemendum sem eru að slugsa, en þeir nemendur eru vissulega til, ekki ber að neita því.

Fyrsta spurning mín til hæstv. menntmrh., herra forseti, er þessi: Hvernig er talan 32 millj., sem á að auka sértekjur framhaldsskólanna um, fundin? Það segir í frv. að lausleg athugun bendi til þess að meira en 15% nemenda endurtaki próf. Það er væntanlega ekki mikið meira en 15% því að þá hefðu menn nefnt hér einhverja aðra tölu.

Samkvæmt því sem fram kemur í fjárlagafrv. er áætlað að innritaðir nemendur í framhaldsskólunum séu um 17.200 og liðlega 15% af því eru um 2.500--2.600 nemendur. Ef þeir borga 1.500 kr. hver fyrir hvert próf, þá fæ ég út úr því að það séu um það bil 3,7--3,8 millj. Er virkilega reiknað með því að hver nemandi falli á 8 prófum eða svo? Ég spyr bara: Hvernig er þessi tala fundin? Ég vildi fá upplýsingar um það.

Ég vil líka fá það skýrt hér út ... (Gripið fram í.) Já, það kann vel að vera til þess að auka fallið, það gæti verið skýringin. Ég vil fá skýringu á því hjá hæstv. ráðherra hvernig hann hugsar sér útfærsluna á þessu. Hvernig á að greina á milli áfangaskóla og bekkjaskóla því að það á að setja sitt hvora reglugerðina undir þessar tvær tegundir skóla? Það segir í fjárlagafrv. að í fyrsta lagi eigi að leggja 1.500 kr. gjald á nemanda, en síðan segir, með leyfi forseta:

,,Með hliðsjón af því að endurinnritun er jafnan meiri í áfangaskólum en bekkjarskólum er áætlun miðuð við 2.500 kr. á nemanda í áfangaskólum en 1.000 kr. í bekkjaskólum.``

Hvernig skýrir ráðherrann þetta? Er þetta að meðaltali miðað við 2.500 kr. í áfangaskólum þó að nemandi borgi 1.500 kr. eða hvernig á að skilja þetta? Ég verð að viðurkenna að ég átta mig ekki á þessu. Það frv. sem við erum að fjalla um hér kveður á um 1.500 kr. gjald. Hver er skilningur ráðherra á þessari grein? Hér er um heimild að ræða til framhaldsskólanna. Er það skilningur ráðherra að skólunum sé þar með heimilt að sleppa ákveðnum hópi nemenda við að greiða þetta? Ég tók fyrr í dag dæmi af fötluðum nemendum í Menntaskólanum við Hamrahlíð sem iðulega þurfa að endurtaka próf. Það kemur auðvitað oft fyrir að nemendur ætla sér of mikið þegar þeir eru að koma inn í framhaldsskóla, sérstaklega áfangaskólana, innrita sig í áfanga og átta sig svo á því að þeir eru búnir að hlaða of miklu á sig eða að undirbúningur er ekki nægilega góður og þeir kjósa að hætta í áfanganum, en samkvæmt þessu eiga þeir að borga fyrir þegar þeir svo innrita sig aftur í áfangann. En er það virkilega meining hæstv. ráðherra að það verði farið að skattleggja t.d. fatlaða nemendur eða nemendur sem, eins og var nefnt fyrr í dag, þjást af dyslexíu? Ég ætla að biðja menn að hafa það í huga að nemendur sem eru með dyslexíu hafa yfirleitt mjög góða greind, þetta er bara líffræðilegur galli sem erfitt er að ráða við og því miður hefur verið tekið allt of lítið á í okkar skólakerfi. Ég þekki sjálf dæmi um það og heyrði síðast dæmi í gær um nemanda sem hefur nýhafið nám í framhaldsskóla hér í borg og þá loksins á að fara að taka á vandanum. Ég vil biðja hæstv. menntmrh. af þessu tilefni að kanna það hvernig þjónustu við þessa nemendur er háttað í grunnskólunum. Ég held því miður að þar sé víða pottur brotinn og get tíundað dæmi um það. Samkvæmt frv. á t.d. þessi hópur nemenda að fara að borga fyrir það að þeir þurfa iðulega að fara oftar en einu sinni í gegnum áfanga. Þessum nemendum er vísað í áfangaskólana vegna þess að það eru meiri möguleikar á því þar að þeir komist hægt og bítandi í gegnum þetta.

Hver er eiginlega hugsunin í þessu? Mér finnst, herra forseti, að hæstv. ráðherra verði að skýra þetta fyrir okkur því að hér er um svo miklu, miklu meira að ræða en það að auka aðhald í skólunum. Þetta er miklu stærra og verra mál.

Ef þessi grein verður felld út úr frv., sem ég vona að gerist, þá vantar skólana þessar tekjur og það verður að bæta þeim það upp.

Ég hef, hæstv. forseti, tíundað þær spurningar og þau atriði sem mér finnst að hæstv. menntmrh. þurfi að skýra fyrir okkur og hann hefur nú kvatt sér hljóðs og ég vona að við fáum nú svör.