Kosningar til Alþingis

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 19:14:13 (998)

1996-11-07 19:14:13# 121. lþ. 20.4 fundur 50. mál: #A kosningar til Alþingis# (skráning kjósenda) frv., VK
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[19:14]

Viktor B. Kjartansson:

Virðulegur forseti. Aðeins út af þessu frv. því það kom fram í máli hv. þm., Svavars Gestssonar, við flutning hans á frv. að hann teldi að kosningar væru ekki með öllu leynilegar ef fulltrúar fengju að sitja í kjördeildum. Í greinargerð með frv. stendur, með leyfi forseta: ,,Kjósandi hlýtur að eiga rétt á því, í landi þar sem ekki er skylda að greiða atkvæði við alþingiskosningar, að ekki sé haft eftirlit með því hvort hann nýti atkvæðisrétt sinn eða ekki.``

Mér finnst eins og að í umræðum hér hafi þessi afstaða svolítið mildast, að það sé eingöngu verið að ræða um að fulltrúar geti ekki fengið að fylgjast með því hverjir hafi greitt atkvæði, heldur sé í lagi að þeir séu þar til að fylgjast með framkvæmd kosninganna. Þess vegna finnst mér að greinargerðin sé kannski ekki alveg í samræmi við það sem hér hefur komið fram.

Ég held að það sé mjög auðvelt fyrir fólk, sem vill ekki að fylgst sé með því hvort það greiði atkvæði eða ekki, að sitja ekki við síma þar til kjörfundi er lokið ef það vill ekki verða fyrir neinni áreitni frá flokkum. Ég sé ekki að við þurfum að breyta lögum til að koma í veg fyrir það að einhverjir hafi samband við viðkomandi ef hann hefur ekki greitt atkvæði. Mér finnst grg. bera svolítinn annan keim en hefur komið fram í umræðunum. Og svo ég vitni aftur, með leyfi forseta, í grg. þá segir þar: ,,Taka verður allan vafa af um að hugtakið ,,leynileg kosning`` nái einnig til þessa atriðis og því er þetta frumvarp flutt.``

Mér finnst því svolítils ósamræmis gæta í grg. og þeim umræðum sem hafa farið fram.