Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 21:47:19 (1015)

1996-11-07 21:47:19# 121. lþ. 20.15 fundur 11. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (tekjutenging bótaliða) frv., SHl
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[21:47]

Sigurður Hlöðvesson:

Virðulegi forseti. Ég tel að frv. það sem hér liggur fyrir um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75/1981, sé einfaldasta og besta kjarabótin sem við getum fært til þeirra verst settu eins og stendur. Ég held það væri ekki slæmt í komandi kjarasamningum ef tekið væri á því hróplega óréttlæti sem felst í þessum háu jaðarsköttum.

Staðreyndin er sú að fólk sem lendir í þessum tekjuhópi er má segja gíslar bágra kjara og getur sig hverki hreyft. Annars vegar eru það þessir jaðarskattar, þ.e. ef fólk reynir að auka við tekjur sínar með meiri vinnu þá fara, eins og sýnt er í greinargerð með frv., upp undir 70% af þeim tekjum í skatta, þessa svokölluðu jaðarskatta. Þannig að fólk getur ekki bætt hag sinn með aukinni vinnu. Það má segja að fólk sé einnig gíslar þeirra lágu launataxta sem það yfirleitt býr við. Fólk í þessum tekjuflokki treystir sér ekki til að standa í harðri kjarabaráttu. Það er gjörsamlega niður njörvað við að borga af íbúðum og framfleyta fjölskyldu, kosta börn í skóla og annað því um líkt og getur ekki fyrir nokkurn mun tekið þátt í harðri kjarabaráttu eða verkföllum vegna þess að högum þess er þannig háttað að ef það missir úr tekjur einhvern smátíma, þótt það sé ekki nema mánuður eða tveir þá á það á hættu að missa það sem það hefur þó verið að reyna að nurla saman, þ.e. hús og bíl og annað sem það hefur reynt að koma sér upp. Þetta er sem sagt samtvinnað af þessum lágu launum og háu jaðarsköttum.

Eins og fram kom í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar þá má segja að þetta sé öfugur skattstigi. Líklega einsdæmi í veröldinni að þannig sé farið að.

Það er einnig spurt hvað það mundi kosta ef þessi lög næðu fram að ganga. Það er eflaust hægt að finna út úr því. En ég held að jafnframt sé hægt að standa undir þeim kostnaði með því að spóla aðeins til baka varðandi fjármagnstekjuskattinn sem settur var á og koma hér á alvöru fjármagnstekjuskatti sem hygli ekki þeim sem mest eiga heldur taki af þeim sem mest eiga. Ég held að það ætti ekki að vera vandamál að koma þessu í framkvæmd.

Ég vil að lokum segja aftur að með því að samþykkja þetta frv. hið snarasta þá væri þar með verið að koma með einföldustu og bestu kjarabótina sem hægt væri nú á þessari stundu.