Listamannalaun

Þriðjudaginn 12. nóvember 1996, kl. 14:50:04 (1042)

1996-11-12 14:50:04# 121. lþ. 21.12 fundur 135. mál: #A listamannalaun# (markmið, greiðslufyrirkomulag o.fl.) frv., SvG
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[14:50]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Þegar þessi lög voru sett á sínum tíma var um þau mjög víðtæk samstaða meðal listamanna. Launasjóður rithöfunda hafði verið til um alllangt skeið. Hann var upphaflega til orðinn þannig að miðað var við að söluskattstekjur af bókum stæðu undir launasjóðnum. Þannig var hann stofnaður. En aðrir listamenn voru ekki með hliðstæða sjóði fyrr en þau lög voru sett um listamannalaun, nr. 35/1991, sem hér er verið að gera tillögu um að breyta.

Ég tel ástæðu til að geta þess að það var hv. þm. Ragnar Arnalds sem stýrði nefndinni sem hafði með samningu frv. að gera og ég tel að hún hafi tekið á málum með ákaflega farsælum hætti. Þannig komust myndlistarmenn og tónskáld inn í listasjóði. En áður höfðu ýmsir menntmrh. flutt frv. um aðskilda sjóði. T.d. var flutt á þinginu af hæstv. menntmrh. Birgi Ísleifi Gunnarssyni frv. til laga um tónskáldasjóð og fleira þess háttar. En hér var horfið að því ráði að taka alla þessa sjóði saman í einn lagabálk. Auk þess varð svo til Listasjóður sem er fjórði sjóðurinn en hann er almennur sjóður sem sinnir einkum öðrum listgreinum en þeim sem falla undir sérgreindu sjóðina eins og segir í frv. sem ég hugsa að sé lítið breytt frá gildandi lögum.

Hér er síðan gert ráð fyrir því, ef ég skil þetta rétt, að ætlunin sé að leiklistarráð komi að úthlutun þess hluta peninganna úr Listasjóði sem fara til leiklistar, þ.e. þriðjungur fjárveitingar Listasjóðs fari í þetta. Út af fyrir sig finnst mér ágætt að leiklistarráð sé kallað til ábyrgðar í þessu efni. Mér finnst það skynsamlegt. En ég vil spyrja hæstv. menntmrh. að því hvort ætlunin er þá að fella niður aðrar fjárveitingar sem hafa farið til áhugaleikfélaga og til leiklistar af öðrum, að mig minnir tveimur, fjárlagaliðum, annars vegar til áhugaleikfélaga og hins vegar til atvinnuleikhópa. Ég vildi leyfa mér að inna hann eftir því hvort þetta mun að hans skoðun hafa sjálfkrafa einhverja breytingu í för með sér á því fyrirkomulagi sem hefur verið varðandi atvinnuleikhópa og áhugaleikfélög.

Þegar frv. var hér til meðferðar var mjög góð sátt um það í þessari stofnun. Þó gagnrýndi einn hv. þm. frv. mjög mikið. Það var hv. þm. Þórhildur Þorleifsdóttir. Hún taldi að þarna væri hlutur leikara og leikstjóra fyrir borð borinn. Síðan varð niðurstaðan samt sú að mig minnir að hv. þm. hafi fellt sig við niðurstöðuna. En mér finnst kannski rétt að rifja það upp sem bendir til þess að á þeim tíma töldu menn að ekki væri skynsamlegt að miða við að leiklistin fengi mikið minna en þá var reiknað með. Að lokum legg ég á það höfuðáherslu, hæstv. forseti, sem ég sagði að í upphafi. Um málið var sátt í upphafi þegar við fluttum þetta frv. sem stjórnarfrv. 1990--1991. Um það var full sátt við listamennina í landinu og mér finnst mikilvægt tryggt verði að hún verði áfram og breytist ekki þrátt fyrir þetta frv.