Áhættu- og nýsköpunarlánasjóður

Þriðjudaginn 12. nóvember 1996, kl. 15:17:04 (1048)

1996-11-12 15:17:04# 121. lþ. 21.19 fundur 19. mál: #A áhættu- og nýsköpunarlánasjóður# frv., Flm. SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[15:17]

Flm. (Svavar Gestsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. iðnaðar- og viðskrh. fyrir svörin. Ég tel að þau séu ágæt og ég er eiginlega sannfærður um að ef samstaða verður, þó það verði utan þings, með þeim hætti sem hæstv. ráðherra er að lýsa getur það orðið til þess að málið fái fljóta meðferð í þessari stofnun. Ég er þeirrar skoðunar að eitt af brýnustu hagsmunamálum atvinnuveganna á Íslandi sé að myndarlegur atvinnuvegasjóður verði til sem taki á málunum heildstætt og faglega og áhættu- og nýsköpunarlánasjóður verði til. Það er vonum seinna að við eignumst slíkan sjóð. Auðvitað verða menn að gera ráð fyrir að slíkir sjóðir muni ef til vill ekki skila mjög miklum arði í reikningum sínum. Menn verða að gera ráð fyrir að eitthvað af þessu þurfi að afskrifa eins og við höfum gert t.d. í sjóðum iðnaðarins. En það breytir því ekki að eiginlega er til skammar að Íslendingar skuli vera eina þjóðin á Vesturlöndum sem ekki hefur haft sjóð eins og við erum að gera tillögu um. Ef við ætlum að fylgjast með og tryggja að lífskjör á Íslandi séu samkeppnisfær við það sem gerist í samkeppnislöndum okkar, þá er áhættulánasjóður einn lykillinn að þeirri stöðu. Þess vegna er það mikilvægt sem fram hefur komið hjá hæstv. ráðherra í þessu efni og athyglisvert er að þetta mikilvæga mál skuli vera rætt á Alþingi án þess að Sjálfstfl., sem einu sinni taldi sig talsmann atvinnuveganna í landinu, láti sjá sig í þessum ræðustól.