Flutningur ríkisstofnana

Þriðjudaginn 12. nóvember 1996, kl. 15:54:15 (1052)

1996-11-12 15:54:15# 121. lþ. 21.16 fundur 17. mál: #A flutningur ríkisstofnana# þál., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[15:54]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Þetta var athyglisverð ræða hjá hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur og eins og kom fram í hennar máli stóð hún að því að leggja til fyrir þremur árum að Landmælingar Íslands yrðu fluttar til Selfoss. Nú upplýsti hún í ræðu sinni að hún styddi ekki að sama stofnun yrði flutt til Akraness með þeim rökum að Selfoss væri allt öðruvísi atvinnusvæði svo ég vitni orðrétt í ræðu hv. þm. Nú langar mig að spyrja hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur: Hvað er svona allt öðruvísi við Akranes en Selfoss? Hvað er það við Akranes sem er svona miklu verra en er á Selfossi? Ég held að landsmenn hljóti að bíða í ofvæni eftir því að fá svörin því að auðvitað verður að vara menn við að flytja til svo slæms staðar sem Akranes er, a.m.k. er hann miklu verri en Selfoss.

Fyrst þingmaðurinn setur þetta fram sem einu ástæðuna fyrir sinnaskiptum sínum í málinu verður að fara fram á að þingmaðurinn upplýsi þing og þjóð um ágalla þessa voðalega staðar, Akraness.