Flutningur ríkisstofnana

Þriðjudaginn 12. nóvember 1996, kl. 15:59:58 (1056)

1996-11-12 15:59:58# 121. lþ. 21.16 fundur 17. mál: #A flutningur ríkisstofnana# þál., EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[15:59]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. 14. þm. Reykv. hafi verið ótrúlega óheppinn þegar hann var að bera saman þessa tvo staði, Akranes og Selfoss. Því ef einhver rök eru fyrir að flytja stofnun eins og Landmælingar austur á Selfoss þá eru líka rök fyrir að flytja hana til Akraness. Hv. þm. nefndi sérstaklega skólastigið áðan. Þá er rétt að vekja athygli á því að Akranes sker sig úr öðrum stöðum víðast hvar úti á landi m.a. frá Selfossi að því leytinu að ekki er ein eða tvær heldur þrjár stofnanir á háskólastigi í nágrannasveitarfélögum Akraness. Kennaraháskólinn starfar á Varmalandi, Samvinnuháskólinn á Bifröst og háskólastig landbúnaðarmenntunar er á Hvanneyri, sem er á vissan hátt vagga og Mekka vísindastarfseminnar á því sviði. Ég verð að segja eins og er, virðulegi forseti, þegar maður fer að hugsa um þetta og velta fyrir sér, þá bendir flest til að þarna hafi einmitt verið hitt á réttan stað ef menn ætla á annað borð að flytja stofnanir af þessu taginu, að tala um Akranes í því sambandi. Ég taldi mjög eðlilegt, sjálfsagt og skynsamlegt að flytja Landmælingar austur á Selfoss og hefði stutt það á sínum tíma. En ég sé við þennan samanburð að margt mælir með því að flytja þessa stofnun frekar upp á Akranes en austur á Selfoss. Þess vegna held ég að hv. þm. hafi orðið á fótaskortur í hugsun sinni þegar hún var að reyna að færa rök að því að eitthvað sérstakt mælti með því að flytja stofnunina fremur austur í Flóa en upp á Akranes, ekki síst í ljósi þess að fram undan er stórkostleg bylting í samgöngumálum sem gerir samskipti við háskólafólk á höfuðborgarsvæðinu í Reykjavík auðveldari.