Flutningur ríkisstofnana

Þriðjudaginn 12. nóvember 1996, kl. 16:09:34 (1061)

1996-11-12 16:09:34# 121. lþ. 21.16 fundur 17. mál: #A flutningur ríkisstofnana# þál., KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[16:09]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég kom ef til vill ekki nægilega vel að því í ræðu ræðu varðandi svæðisbundna þjónustu að ég get alveg tekið undir þá hugmynd þar sem hún á við. Mér finnst t.d. að Vegagerðin hafi farið inn á mjög réttar brautir í uppbyggingu sinni. Það er spurning um aðra þætti. Þingmaðurinn nefndi ýmislegt í fyrstu ræðu sinni, þætti sem mætti flytja út á land og eflaust væri rétt að skoða það. Þjónusta er víða til staðar og væri hægt að sameina slíka þjónustuþætti til að auðvelda fólki aðgang að upplýsingum og slíku. Reyndar er búið að gera margt í því, t.d. hjá Húsnæðisstofnun. Ég man ekki lengur eftir neinum sérstökum þáttum sem þingmaðurinn nefndi sem þyrfti ef til vill að skoða betur en mér fyndist rétt að gera það.

Hvað varðar þriðja stjórnsýslustigið þá finnst mér mergurinn málsins vera sá að miklu réttara sé að stækka sveitarfélögin, gera þau stærri og öflugri þannig að þau nái til fleira fólks og yfir stærri svæði fremur en að bæta við heilu stjórnsýslustigi í þessu 270 þús. manna þjóðfélagi. Ég held að við eigum að kunna okkur hóf í uppbyggingu á stjórnsýslu. Kvennalistinn hefur aldrei, svo ég muni, samþykkt neitt um þetta. Hins vegar hafa ýmsar af þingkonum og félögum í Kvennalistanum haft sterka skoðun á þessu atriði. Ég hef hins vegar alltaf verið því andvíg. Alltaf verið á móti því að koma upp þriðja stjórnsýslustiginu.