Flutningur ríkisstofnana

Þriðjudaginn 12. nóvember 1996, kl. 16:18:03 (1065)

1996-11-12 16:18:03# 121. lþ. 21.16 fundur 17. mál: #A flutningur ríkisstofnana# þál., KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[16:18]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er erfitt að svara þessari röksemdafærslu hv. þm. Hann kom annars vegar inn á það atriði hvers vegna Reykvíkingar vilja ekki flytja og fyrir því eru margvíslegar ástæður. Ég verð að segja að það kom mér á óvart hversu hörð andstaðan var innan Landmælinga Íslands við það að flytja. Ég rifja það upp enn og aftur að þær tillögur sem gerðar voru á sínum tíma byggðust á því að skoða hvaða möguleikar eru fyrir flutningi. Hvert er mögulegt að flytja, í rauninni án tillits til þess að skoða hvað starfsfólkið vill. Það er alveg þekkt frá þeim löndum þar sem flutningur ríkisstofnana hefur átt sér stað að þar er mikil andstaða meðal starfsfólks en yfirleitt hefur raunin orðið sú að einhver hluti þess fer með. Það er auðvitað forsendan fyrir því að starfsemin haldi áfram. Eins og nú horfir bendir allt til þess að það verði einungis forstjórinn sem flytur. Hann þarf þá að ráða nýtt fólk og byggja allt upp frá grunni. Það getur hvorki verið þjóðinni né þeirri þjónustu sem stofnunin veitir til hagsbóta að standa þannig að málum.

Ég hef ekki tíma til þess, hæstv. forseti, að fara út í þær aðstæður sem ráða því að fólk vill ekki flytja. Þeir sem eru fæddir og aldir hér upp vilja auðvitað vera hér alveg eins og Ísfirðingar vilja búa á Ísafirði ef þeir hafa það sæmilegt. Reyndar flytja þeir nú margir í burtu. En mýsnar og fíllinn verða að bíða betri tíma.