Flutningur ríkisstofnana

Þriðjudaginn 12. nóvember 1996, kl. 16:21:15 (1067)

1996-11-12 16:21:15# 121. lþ. 21.16 fundur 17. mál: #A flutningur ríkisstofnana# þál., KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[16:21]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð eiginlega að skora á hv. þm. að fara í ræðustólinn á eftir og skýra þessi sjónarmið sín. Ég fæ ekki séð hvílík nauðsyn er á því að koma upp þriðja stjórnsýslustiginu. Hér er allþokkalegt og auðvelt samband milli sveitarfélaganna annars vegar og ríkisvaldsins hins vegar. Ég benti á það að ég teldi það réttari leið að stækka sveitarfélögin og styrkja þau þó að mér dytti nú ekki til hugar að ganga jafnlangt og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson nefndi að gera Austfirði að einu sveitarfélagi. Það sjá allir sem þekkja þar til að það væri mjög erfið eining við að eiga en víða annars staðar er hægt að stækka sveitarfélögin mjög auðveldlega og gera þau þar með að miklu sterkari einingum sem ættu miklu betur með að fóta sig og bjarga sér í heimi sem er að breytast mjög ört. En mér finnst að menn þurfi að færa nánari rök fyrir því hvers vegna þriðja stjórnsýslustigið er svona nauðsynlegt.