Lögræðislög

Þriðjudaginn 12. nóvember 1996, kl. 19:30:36 (1098)

1996-11-12 19:30:36# 121. lþ. 21.23 fundur 49. mál: #A lögræðislög# (sjálfræðisaldur) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[19:30]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég vil ítreka enn að ég er að tala um að fresta sjálfræði þeirra ákveðnu einstaklinga til t.d. 18 ára aldurs og það er engan veginn það sama og svipting sjálfræðis eins og talað er um í sambandi við fullorðið fólk.

Varðandi samanburðinn við útlönd, þá hef ég einmitt dáðst að því með íslenska unglinga hvað þeir eru ábyrgðarfullir og sjálfstæðir miðað við það sem er erlendis. Ég vil ekki taka þetta af þeim, þetta sjálfstæði og þessa ábyrgð sem þeir taka á sig. Ég hygg að hækkun sjálfræðisaldurs mundi einmitt virka þannig að unglingarnir yrðu lengur börn og tækju ekki á sig þá ábyrgð sem þeir gera í dag. Ég vil endilega halda því að unglingarnir taki þá ábyrgð sem þeir gera.