Póst- og fjarskiptastofnun

Miðvikudaginn 13. nóvember 1996, kl. 14:54:08 (1145)

1996-11-13 14:54:08# 121. lþ. 23.13 fundur 149. mál: #A Póst- og fjarskiptastofnun# frv., SighB
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur

[14:54]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Á þingi Alþfl., jafnaðarmannaflokks Íslands, sem haldið var nú um helgina var ályktað m.a. um fjarskiptamál. Á einum stað segir svo, með leyfi forseta: ,,Íslenskir jafnaðarmenn eru þeirrar skoðunar að óæskilegt sé að hið opinbera, ríki og sveitarfélög og fyrirtæki á þeirra vegum, stundi atvinnurekstur í samkeppni við einkarekin fyrirtæki. Því aðeins er réttlætanlegt að opinberir aðilar sinni atvinnustarfsemi að um sé að ræða starfsemi til að tryggja landsmönnum sem jafnasta og besta þjónustu á sértækum sviðum, svo sem í heilbrigðismálum, menntamálum, við vísindastarfsemi og rannsóknir. Einokun ríkisins í atvinnurekstri verður að aflétta þar sem því verður við komið eins og t.d. í rekstri fjarskiptaþjónustu og á sviði orkuframleiðslu og orkuviðskipta.``

Í þessum ályktunum segir einnig svo, með leyfi forseta:

,,Framfarir í upplýsinga- og samskiptatækni munu hafa víðtæk áhrif í náinni framtíð. Alþfl., jafnaðarmannaflokkur Íslands, álítur hlutverk stjórnvalda í hinni öru þróun vera tvenns konar. Annars vegar ber að virkja tæknina eftir föngum til að bæta þjónustu hins opinbera og fara betur með fé almennings og hins vegar að efla grunngerð þjóðfélagsins þannig að það sé í stakk búið að nýta þau tækifæri sem tæknin býður til aukinnar hagsældar og velferðar. Flokkurinn telur að m.a. eigi að nýta upplýsingatæknina til að færa opinbera þjónustu nær hinum almenna borgara og til að bæta aðgang aldraðra, fatlaðra og annarra sem ekki eiga heimangengt að henni. Þá telur flokkurinn mikilvægt að tryggja með lagaramma og leikreglum að Íslendingum bjóðist fullkomin fjarskiptaþjónusta með bestu tækni sem völ er á hverju sinni. Þar sé vænlegasta leiðin að efla opna samkeppni á fjarskiptamarkaði meðan þess er gætt að fáir aðilar eignist ekki markaðinn í krafti einokunaraðgangs að grunnbúnaði og flutningsleiðum.

Loks má nefna að forgangsmál er að tölvuvæða og nettengja skóla landsins og þjálfa kennara og annað starfsfólk í notkun og möguleikum tækninnar.``

Hér lýkur tilvitnunum í nýsamþykktar ályktanir sem flokksþing Alþfl., jafnaðarmannaflokks Íslands, hefur gert. Af þessum ályktunum má marka að við styðjum í meginatriðum þá stefnu sem er verið að marka í þeim þremur frv. sem flutt eru hér í dag en hæstv. samgrh. hefur þegar mælt fyrir einu þeirra. En vissulega áskiljum við okkur rétt til að gera athugasemdir við einstök atriði og spyrjast nánar út í framkvæmd mála, svo sem starfsmannamála og fleiri þátta. En sú almenna stefna sem hér er mörkuð teljum við að sé rétt. Það er vissulega ánægjulegt að sjá að í þessum frv. er einmitt gert ráð fyrir því, svo ég ræði þau í einu slengi eins og fyrrverandi forseti á þessu hv. þingi tók oft til orða, að í þessu frv. er gert ráð fyrir því bæði að efla grunnþjónustuna og þá ekki síst að efla þá þjónustu sem þetta mikilvæga kerfi getur veitt öldruðu fólki, fötluðum og þroskaheftum til þess að bæta lífi við árin.

Ég vil aðeins gera að sérstöku umtalsefni eitt atriði í þessu frv. til laga um Póst- og fjarskiptastofnun sem hér er flutt. Það vakti athygli mína að í 9. gr. frv. er gert ráð fyrir að heimilt verði að innheimta sérstakt gjald fyrir rekstrarleyfi, sem á að veita samkvæmt frv., þegar takmarka þarf fjölda rekstrarleyfa. Segir í skýringum, með leyfi forseta: ,,Getur stofnunin jafnvel ákveðið að gjald fyrir slík takmörkuð gæði skuli ákvarðast með útboði.`` Nú er mér skemmt, herra forseti. Þarna er verið að innleiða í þessa þjónustu veiðileyfagjaldtöku. Með öðrum orðum er verið að gera ráð fyrir því að þar sem ríkið selji takmarkaðan aðgang að þjónustu, eða að tekjuöflunarmöguleikum eins og í þessu felast, þá verði tekið fyrir það sérstakt gjald og jafnvel komi til greina að það gjald verði ákveðið með útboði. Höfundar frv. eru auðsjáanlega þeirrar skoðunar að þegar um það sé að ræða að ríkið veiti takmarkandi réttindi til tekjuöflunar á sviði þjónustu sem ríkisvaldið telur nauðsynlegt, stýra aðgangi manna, að þá beri að taka fyrir það takmarkaða aðgengi sérstakt gjald sem jafnvel verði ákvarðað í útboði.

[15:00]

Þetta er nú hvorki meira né minna en meginatriðin í þeirri stefnu sem kennd hefur verið við veiðileyfagjald af einum eða öðrum toga í fiskveiðum. Og markast einmitt af nákvæmlega sömu viðhorfum, sumsé þeim að ríkið er þar að veita takmarkaðan aðgang, ekki almennan aðgang heldur takmarkaðan aðgang, að auðlind og tekjuöflunarmöguleikum sem ríkisvaldið fer með og er í dag veitt takmörkuðum hópi einstaklinga án þess að nokkurt gjald komi fyrir. Sú aðferð sem hér er kynnt er hins vegar í fullu samræmi við þá aðferð sem nú er notuð við úthlutun á takmörkuðum tollkvótum samkvæmt GATT. Þar er einnig verið að veita aðgang að takmörkuðum gæðum sem ekki allir geta notið heldur einn fær og annar ekki og þá er sá háttur hafður á að þau takmörkuðu gæði eru veitt gegn gjaldi eftir að útboð hefur farið fram.

Nú er verið að innleiða nákvæmlega sömu sjónarmið, herra forseti, í þessum þáttum póst- og símaþjónustu. Þar er gert ráð fyrir að ríkissjóður taki gjald sem jafnvel verði ákveðið með útboði af tekjuöflunarmöguleikum fyrirtækja eða einstaklinga sem ríkið ætlar sér að skammta í krafti þess almannavalds sem ríkisvaldið fer með. Og styrkjast nú stoðirnar óðum undir þeim sjónarmiðum sem auðkennt hafa Alþfl., jafnaðarmannaflokk Íslands, og fjölmarga aðra aðila í þessu samfélagi, sem kallað er veiðileyfagjald. Að vísu er ekki talað um þessa gjaldtöku sem veiðileyfagjald í þessu frv. en það skiptir nú litlu máli enda ekki stunduð veiði í þessu sambandi en það kemur í sama stað niður, virðulegi forseti, því þarna er gert ráð fyrir því að fyrirtæki og einstaklingar greiði sérstakt gjald fyrir takmörkuð réttindi sem ríkið veitir þeim umfram aðra og ekki er á allra færi að fá.

Þetta er mjög athyglisverð stefnumörkun sem þarna fer fram og ég býð sérstaklega hæstv. samgrh., Halldór Blöndal, velkominn í hóp veiðigjaldssinna eða öllu heldur þeirra sem telja að þegar handhafar ríkisvaldsins, framkvæmdarvaldið, úthluta takmörkuðum réttindum til einstaklinga sem geta orðið þeim að féþúfu að þá skuli ríkið taka sérstakt gjald sem jafnvel verði ákveðið á uppboðsgrundvelli. Og gerast nú fleiri vígamenn en ég hugði þegar hæstv. samgrh. er genginn í þennan hóp. (Gripið fram í: Nýr samstarfsflötur.) En ég ítreka, ja, það má nú segja að þarna komi upp óvæntur samstarfsflötur í pólitíkinni. Og átti ég nú á dauða mínum von en ekki því að sá nýi samstarfsflötur kæmi frá hæstv. samgrh., Halldóri Blöndal, en lengi skal manninn reyna.

Ég vil að lokum aðeins ítreka það sem ég sagði hér í upphafi að ég álít að hér sé skynsamleg stefnumótun á ferðum í þessum þremur frv. og sú stefnumótun er í meginatriðum í samræmi við þá stefnu sem Alþfl. markaði sér á síðasta flokksþingi þó við áskiljum okkur auðvitað rétt til að gera athugasemdir við einstök atriði í þeim frv. sem hæstv. ráðherra mælir fyrir.