Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1995

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 12:05:31 (1172)

1996-11-14 12:05:31# 121. lþ. 24.4 fundur 67#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1995# (munnl. skýrsla), ÓE
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[12:05]

Ólafur G. Einarsson:

Ég bið afsökunar, herra forseti. Ég gleymdi að svara hv. þm. Kristínu Halldórsdóttur. Hún ræddi um það sem fram kom um nýjungar á sviði opinberrar endurskoðunar í sambandi við umhverfismál. Þetta hefur komið upp áður. Fyrir utan það að ég nefndi það í ræðu minni í dag, minntist ég á þetta í ræðu minni í fyrra þegar skýrsla Ríkisendurskoðunar var til umfjöllunar í Alþingi. Ég tel að Ríkisendurskoðun geti sinnt þessu hlutverki núna innan þess fjárlagaramma sem hún hefur og vonandi fær á árinu 1997. En ég vek athygli á því að þetta hlýtur að verða vaxandi þáttur í starfsemi Ríkisendurskoðunar og þess vegna kann fjárþörfin að fara vaxandi einmitt í sambandi við þennan þátt endurskoðunarinnar. Ég tel að verði orðið við fjárlagabeiðni Ríkisendurskoðunar fyrir árið 1997, þá sé það innifalið í fjárveitingunni til Ríkisendurskoðunar.