Einelti í skólum

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 14:14:37 (1200)

1996-11-14 14:14:37# 121. lþ. 24.96 fundur 88#B einelti í skólum# (umræður utan dagskrár), SJóh
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[14:14]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Líklega er rétt að einelti í íslensku þjóðfélagi hafi aukist á undanförnum árum. Við opnum varla svo blað eða útvarp þessa dagana að ekki berist okkur fregnir af vaxandi ofbeldisverkum unglinga og einelti er ekki annað en ein tegund ofbeldis og ekki sú geðslegasta. En hvað veldur þessari óheillaþróun? Þar kemur margt til.

Ég minni t.d. á vaxandi framboð á grófum ofbeldismyndum í sjónvarpi og kvikmyndahúsum. En skýringanna er kannski líka að leita í því að við búum nú í samkeppnisþjóðfélagi. Stjórnvöld skera niður stuðning við alla þá sem standa höllum fæti í samfélaginu. E.t.v. mætti orða það svo að sjúkir, aldraðir og fatlaðir séu öðrum fremur lagðir í einelti af ríkisstjórninni.

Undanfarið hefur meint einelti kennara gegn nemendum nokkuð verið í umræðunni vegna könnunar sem gerð var í Noregi. Ekki ætla ég að mæla gegn því að slíkt verði kannað hér á landi þó ég hafi ekki orðið vör við þetta vandamál á löngum kennsluferli. Auðvitað verður að gera skýran greinarmun á einelti og á ögun og uppeldi, sem kennarar verða stunda eigi skólastarf að geta farið eðlilega fram nemendum til gagns.

[14:15]

Mig langar að lokum að vitna í könnun sem Ingvar Sigurgestsson gerði á viðhorfi til námsefnis og fleira í grunnskólum víðs vegar um landið á vegum Rannsóknastofnunar Kennaraháskóla Íslands 1988 en þar segir orðrétt í niðurstöðum, með leyfi hæstv. forseta:

,,Allir umsjónarkennarar sem fylgst var með virtust leggja sig fram og réðu vel við starf sitt. Það leyndi sér ekki að þeir báru hag nemenda fyrir brjósti. Yfirleitt ríkti þægilegt, óþvingað andrúmsloft í kennslustundum. Agavandamál voru fátíð og nemendur hlýddu kennurum sínum. Í viðtölum við nemendur kom skýrt fram að þeir báru mikla og að því er virtist einlæga virðingu fyrir flestum kennurum sínum. Nánast allir þeir kennarar er heimsóttir voru höfðu örugga stjórn á kennslunni. Sú ímynd agaleysis og óreiðu, sem oft er dregin upp af skólum á sér ekki stoð í þeim athugunum sem gerðar voru í tengslum við þessa rannsókn, en alls sá ég 120 kennara að störfum.``