Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 15:17:13 (1214)

1996-11-14 15:17:13# 121. lþ. 24.6 fundur 146. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (rekstrartap, afskriftareglur, hlutabréf o.fl.) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[15:17]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil bara ítreka það sem ég sagði við hv. þm. áðan að fordæmið er frá fyrri fjmrh. Þar átti sér stað skerðing sem var kannski meiri en sú skerðing sem hefur átt sér stað á síðustu árum.

Ég fæ tækifæri til þess að koma að öðrum atriðum í ræðu hv. þm., t.d. að tryggingagjaldinu. Það er hárrétt hjá honum að það er gjald sem lagt er á laun og þess vegna á veltu. Tryggingagjald hér á landi er þó miklum mun lægra heldur en víðast hvar annars staðar og sá er munurinn á tryggingagjaldinu og aðstöðugjaldinu að tryggingagjaldið er lagt á vegna atriða mjög skyldum launum, þ.e. vegna atvinnuleysisbóta annars vegar og hins vegar vegna ýmissa trygginga sem bókstaflega má leiða af launum. Það er því ekki hægt að segja að þessi launatengdi kostnaður sé aldeilis út í bláinn því að kostnaðurinn er sannarlega launakostnaður sem var borinn af fyrirtækjum fyrr á öldinni og jafnvel á síðustu öldum eins og ég veit að hv. þm., sem er fyrrv. fjmrh., veit af því að hann er áreiðanlega vel að sér í Bismarck.

Varðandi hlutafjárafsláttinn var hugmyndin sú þegar þetta var sett í lög, ég var einn þeirra sem að því stóðu á sínum tíma, að þetta væri bráðabirgðalausn. Ég heyri að hv. þm. sættir sig vel við þessa breytingu miðað við þá breytingu sem gerð var á fjármagnstekjuskattinum.

Að allra síðustu, af því að ég veit ekki hvort hv. þm. hefur kost á því að hlusta á seinni ræðu mína hér í dag, þá vil ég staðhæfa það hér að það fer ekki saman að veita skattafslátt á greiðslum inn í lífeyrissjóði og úr þeim einnig. Og frá því fyrir árið 1988 er ekki hægt að tala um tvísköttun og í reynd má segja að í persónuafslættinum 1988 hafi falist jafngildi þess sem kom fram í 10% afslættinum í lögunum frá 1978--1988 í þessu máli þannig að ekki sé um neina tvísköttun að ræða í þessu sambandi.