Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 20:39:01 (1260)

1996-11-14 20:39:01# 121. lþ. 24.6 fundur 146. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (rekstrartap, afskriftareglur, hlutabréf o.fl.) frv., fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[20:39]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Það eru nokkur atriði sem ég sé ástæðu til þess að fjalla um í ræðu minni enda líður nú sjálfsagt senn að lokum umræðunnar. Ég tek fram að það er rétt sem hefur komið fram í umræðunni og fyrst og fremst hjá einstökum hv. þm. að á undanförnum árum hefur verið gengið nokkuð kerfisbundið í að lagafæra skattalegt umhverfi fyrirtækja og atvinnureksturs hér á landi. Eins og ég hef reyndar sagt áður í umræðunni held ég að okkur hafi tekist nokkuð vel í þeim efnum, svo vel að atvinnuleysi hér varð öllu minna heldur en víðast í löndunum í kringum okkur þótt auðvitað séu fleiri skýringar þar á. Við megum aldrei missa sjónar á því hve mikilvægt það er að atvinnuleysið skjóti ekki rótum með sama hætti og gerst hefur t.d. hjá frændþjóðum okkar á Norðurlöndum þar sem atvinnuleysi er sums staðar yfir 10% og jafnvel upp í 14--17% eins og er í Finnlandi. Þar búast menn ekki við að sjá verulegan árangur í þeim málum fyrr en jafnvel um næstu aldamót. Þetta er grafalvarlegt því þegar fólk missir vinnuna þá er svo stutt í að fólkið missi sjálfsvirðinguna. Þegar við erum að tala um atvinnulífið megum við ekki gera eins og tíðkaðist fyrir nokkrum áratugum, að leggja svona mikið upp úr því að það sé munur á fólki og fyrirtækjum. Fyrirtæki þurfa á fólkinu að halda og fólk á fyrirtækjum. Fyrirtæki eru eins konar mjólkurkýr og ef þær eru ekki fyrir hendi fer að sjálfsögðu illa, það þekkjum við. Þess vegna er svo mikilvægt að sjá samhengi hlutanna í því að okkur ber að hafa skattalegt umhverfi fyrirtækjanna með þeim hætti að íslensk fyrirtæki standi erlendum fyrirtækjum snúning. Þannig tryggjum við best að fólk hafi atvinnu, hafi tekjur, launatekjur en þurfi ekki að lifa á styrkjum og bótum sem koma frá skattgreiðendum. Þetta er grundvallaratriði. Hér er hins vegar verið að laga til í skattamálum án þess að verið sé að gefa nokkuð eftir í atvinnulífinu. Það er verið að gera skattkerfið sveigjanlegra, fyrst og fremst til þess að fyrirtækin geti betur fótað sig í sveiflukenndu efnahagslífi þjóðarinnar. Við þekkjum hve erfiðlega það hefur gengið fyrir okkur í miklum sveiflum að ná tökum á efnahagslífinu og með þeim breytingum sem hér er verið að gera er verið að jafna stöðu fyrirtækjanna þannig að þau geti haldið úti starfsemi sinni, greitt mönnum laun, haldið úti atvinnu hvort sem árar vel eða illa. Fyrst og fremst um þessi atriði snýst það frv. sem við ræðum hér. Það er ekki verið að gefa eftir einhverjar fjárfúlgur til fyrirtækjanna, síður en svo.

Við megum ekki gleyma því að fyrir örfáum árum ætluðum við að klippa gífurlega stóran hala af yfirfæranlegu rekstrartapi, nú höfum við aðeins lengt í spottunum en eftir sem áður erum við að tala um að yfirfæranlega tapið megi nýta í átta ár en hingað til hefur verið hægt að nýta allt tap frá upphafi. Þetta er mikil breyting og eftir að hafa skoðað málið vandlega varð niðurstaðan sú að lengja í tímabilinu sem má nýta til að færa yfir yfirfæranlegt tap á milli ára.

Hér koma síðan menn upp og segja: Hvað um einstaklingana? Það er alveg rétt, hér er ekki verið að fjalla um einstaklingana. Þetta snertir að vísu þann hóp einstaklinga sem gætu hugsað sér að kaupa hlutabréf í fyrirtækjum, það eru væntanlega ekki þeir einstaklingar sem búa við verstan efnahag, ég á ekki von á því, heldur hinir sem hafa ráð á því að leggja til hliðar, spara. Við sem stöndum að þessum málum teljum að það fólk hafi áhuga á slíku sem hefur efni á því vegna þess að við höfum þegar breytt skattalögunum og lækkað skatthlutfall af arðstekjum. Þetta þarf að skoða í þessu samhengi. Við megum heldur ekki gleyma því að þegar afslátturinn var settur í lög vegna hlutabréfakaupa var það bráðabirgðaráðstöfun. Það var ráðstöfun sem fyrst og fremst var gerð til þess að reyna að koma hlutabréfakaupum af stað. Til þess að búa til hlutabréfamarkað. Það þekki ég því að ég stóð að þessari tillögugerð sjálfur. Það stóð aldrei til að þessi afsláttur mundi gilda til eilífðarnóns. Ég rifja upp að á árinu 1991 eða 1992 var samþykkt lagafrumvarp á Alþingi flutt af stjórn sjálfstæðismanna og alþýðuflokksmanna þar sem gert var ráð fyrir að trappa þennan afslátt niður á fimm árum og fyrsta skrefið var tekið enda stendur í lögum að 80% af ákveðinni upphæð megi draga frá. En það var hætt við vegna óska sem komu fram í tengslum við kjarasamninga einmitt á þeim tíma sem atvinnulífið stóð einna verst. Þess vegna var þessu frestað en nú þykir eðlilegt að taka skrefið og við höfum tekið það til fulls til þess að koma í veg fyrir að breytingar sem við þurfum að gera á næsta ári verði afturvirkar. Það hefur komið í ljós að þessa fjármuni, sem þeir hafa notað sem betur mega sín við hlutafjárkaup, á að nýta til að draga úr jaðaráhrifum skattkerfisins sem allir hér inni lýsa sig nú samþykka og ég fagna því.

[20:45]

Atriði sem hér hefur borið nokkuð á góma, kannski sér í lagi hjá hæstv. forseta, hv. þm. Ragnari Arnalds, og hefur verið nokkuð í umræðunni einkum og sér í lagi hjá eldri kynslóðinni er það sem menn hafa kallað tvísköttun lífeyris. Það er bráðnauðsynlegt enn einu sinni að skýra hvað hér er á ferðinni því það gætir nokkurs misskilnings hjá mönnum oft og tíðum. Fram til ársins 1988 var ekki um tvísköttun að ræða, menn gátu dregið lífeyrisgreiðslur, iðgjöldin, frá tekjum á skattframtölum sínum eða valið svokallaða 10% reglu. Á árinu 1988 var lögunum breytt og persónuafsláttur tekinn upp í staðinn og sá persónuafsláttur átti að ná til allra frádráttarliða sem áður þekktust í lögunum og þeir að hverfa brott. Það var ein meginstefnan í því frv. Því var lýst yfir að þessi persónuafsláttur næði líka til frádráttarins vegna lífeyrisgreiðslnanna. Það er hins vegar rétt sem hefur komið fram í þessari umræðu að smám saman varð persónuafslátturinn ekki eins mikill og til stóð í upphafi. Þær breytingar voru gerðar, ég ætla ekkert að nefna nöfn þeirra sem stóðu að því. (Gripið fram í: Það er búið að því.) Það er búið að því og ég þarf ekki að endurtaka það.

Þetta er ég að rifja upp vegna þess að þegar við á haustdögum 1994, hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson, þá utanrrh., sá sem hér stendur og fleiri ágætir menn í þeirri ríkisstjórn, ákváðum að koma til móts við þessar kröfur þá fannst okkur eðlilegt að gera það með þeim hætti að skattafslátturinn birtist í útgreiðslu úr lífeyrissjóðunum. Það var umdeilanlegt hvort ætti að fara þá leið og hvort yfir höfuð átti að gera eitthvað í þessa áttina. Það leið ekki sólarhringurinn frá því að frá þessu var sagt að forustumenn Alþýðusambands Íslands sögðu mér að þessi aðferð væri ekki sú sem þeir vildu fara. Þeir vildu nota þá aðferð að inngreiðslan í sjóðina yrði frádráttarbær og sögðu að þeir mundu taka málið upp í næstu kjarasamningum sem þeir og gerðu. Niðurstaðan varð, eins og flestir hér inni muna, að það var farið að þeirra ráðum. Það er útilokað að fara báðar leiðirnar. Það er að vísu stundum sagt um stjórnmálamenn þegar þeim er lýst að þegar þeir koma að krossgötum þá velji þeir báðar leiðirnar en í þessu málum er það ekki hægt. Það sem skiptir hins vegar máli er að hafi einhvern tíma verið réttur til þess fyrir einstaklinga að fá einhverjar bætur út á tvísköttun þá er það eingöngu fyrir þá sem borguðu inn í sjóðina á árunum 1988--1994. Engir aðrir hafa þennan rétt. En ég heyri í blöðum að menn eru að tala um að það sé einhver réttur þeirra sem jafnvel voru komnir yfir sjötugt árið 1988. Það getur engan veginn staðist. Þetta þarf auðvitað að koma skýrt fram því það lifir svo lengi í þessu einhvern veginn og erfitt að kveða þetta niður, eins og kannski eðlilegt er. (JBH: Það er vonlaust.) Það er vonlaust, segir einn af fyrrum fjármálaráðherrum þjóðarinnar hér úr sal.

Þegar kemur að tryggingagjaldinu hefur verið gagnrýnt að það skuli vera lagt gjald á þennan stofn. Ég get út af fyrir sig tekið undir að það er slæmt að þurfa að nota veltu sem skattstofn alveg án tillits til afkomu fyrirtækjanna. En það má ekki gleyma því að þessi skattur er svo tengdur launum að það réttlætir hvernig hann er lagður á. Þetta er reyndar gert í öllum okkar nágrannalöndum þar sem skatturinn er miklu hærri að Danmörku undanskilinni. Þar er skatturinn talsvert lægri, líklega ekki nema 2 eða 3%, hérna er hann 5,5% en víðast er hann u.þ.b. þrefaldur á við það sem við erum að tala um hér. Þetta mál er að vísu ekki verið að ræða núna, það kemur að því síðar, en það blandaðist inn í umræðuna enda má segja að þessi mál hangi að nokkru leyti saman.

Hér hafa orðið umræður um það sem ekki er í frv., kannski eðlilega, þar með almennt um tekjuskattskerfið og svokallaða jaðarskatta einstaklinga. Okkur gefst án efa betra tækifæri til þess síðar í vetur að ræða það mál en ég vil ekki láta minn hlut eftir liggja og hef reyndar flutt margar ræður um jaðarskattinn og áhrif hans og tek heils hugar undir það sem menn hafa sagt hér að þetta er eitt brýnasta verkefni sem við stöndum frammi fyrir. Íslenska tekjuskattskerfið er ólíkt tekjuskattskerfum nágrannaþjóðanna. Það gefur miklu minna í ríkissjóð. Það eru miklu færri sem greiða skatt. Það eru mjög margir sem fá greitt út úr skattkerfinu. Það má kannski skipta framteljendum í þrjá hópa, þriðjungur sem greiðir skatt, þriðjungur sem fær bætur út en greiðir enga skatta og þriðjungur sem hvorki fær bætur né greiðir skatta. Mjög gróft má skipta framteljendum í þessa þrjá hópa. Skattkerfið er mjög sérstakt því það er gífurlega tekjujafnandi. Það er svo tekjujafnandi vegna þess að bætur í kerfinu eru tekjutengdar, hlutföllin há og persónuafslátturinn óhemjulega hár miðað við það sem gerist hjá öðrum þjóðum.

Ég vil taka undir það sem hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson var að segja, ég hef að sjálfsögðu leitt hugann að því, að ég hygg að það sé skynsamlegra fyrir okkur í þessari stöðu að draga frekar úr persónuafslættinum og lækka hlutföllin og draga úr jaðaráhrifunum á móti. Það hygg ég að ætti að vera til skoðunar í þessu öllu saman.

Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir ræddi einmitt um þetta og flutti okkur sögu af litlu Gunnu og litla Jóni og jaðaráhrifunum, allt saman satt og rétt, en frægasta dæmi Íslandssögunnar eru þó um húsnæðisbæturnar. Í frv. sem var flutt í upphafi og þáverandi félagsmálaráðherra lagði fram var jaðarskatturinn yfir 100%. Með öðrum orðum borgaði sig að draga úr tekjunum því þá fengu menn meira í bætur en sem nam tekjumuninum. Þannig var frv. í upphafi, allt í nafni félagslegs réttlætis. Ég ætla ekki, af sérstökum ástæðum, að þreyta hvorki sjálfan mig né aðra með því að rifja þessi mál upp. Þau gengu nærri mörgum í þeirri ríkisstjórn.

Virðulegi forseti. Það er ekki ástæða til, held ég, að fara fleiri orðum um málið við 1. umr. þessa máls. Það hafa þegar komið fram viðhorf, ég held flest viðhorf sem upp geta komið, gagnvart þessu lagafrumvarpi. Það fer síðan til nefndar og ég vil aðeins lýsa því yfir að við munum að sjálfsögu kappkosta eins og venja er að koma öllum þeim upplýsingum sem þarf að koma til nefndarinnar.