Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 20:59:10 (1263)

1996-11-14 20:59:10# 121. lþ. 24.6 fundur 146. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (rekstrartap, afskriftareglur, hlutabréf o.fl.) frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[20:59]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Varðandi fyrsta liðinn um hlutabréfaafsláttinn þá er alveg ljóst að þessi ráðstöfun mun draga úr kaupum einstaklinga. Hér hefur verið talað um 300 til 650 milljónir. Það er því líklegt að þetta þýðir tekjuskattshækkun fyrir einstaklinga upp á kannski 100, 200 milljónir, áætla ég. Það er nú svo sem ekki meira. Ég benti á að það væri e.t.v. eðlilegra að þrepa þetta niður og skilja eftir einhvern hvata til hlutabréfaviðskipta. Það yrði skoðað í hv. nefnd hvort menn gætu ekki fallist á þá útfærslu. Ég held að eins og frv. er lagt upp með sé ekki gott.

Varðandi 30 milljarða tapið. Ef 15 væru hér á milli og menn greiddu tekjuskatt af því þá er þetta tekjutap fyrir ríkissjóð upp á 5,5 milljarða, þannig að menn átti sig á hvað um er að ræða ef menn gætu nýtt þetta tap að fullu og þyrftu ekki að greiða af því skatt. Nú getum við farið niður og sagt ja, eitthvað af þessu kemur kannski ekki til greiðslu í þessum mælikvarða. En ég vek athygli alþingismanna á því að við erum að tala hér um tölur sem eru líklega einhverjir milljarðar, kannski 1 eða 1,5 milljarðar, ég get ekki áætlað það. Ég gæti sett upp einhverjar forsendur en við erum að tala um verulegar upphæðir sem ríkið verður af við þessa breytingu úr fimm árum í átta ár. Menn skulu gera sér það alveg ljóst. Hér er um að ræða tekjuskattslækkun til fyrirtækja landsins gerða með örskömmum fyrirvara rétt fyrir áramót. Það er það sem ég gagnrýndi í minni ræðu frekar en hitt, að lengja tímann. Hér eru menn að færa fyrirtækjum miðað við núverandi löggjöf tekjuskattslækkun upp á nokkur hundruð milljónir, til ef til vill 2 milljarða.

Varðandi vísitölutenginguna þá er það svo, hæstv. fjmrh., þó það virki að hluta til í tvær áttir þá vegur tekjufærslan til fyrirtækja mjög þungt í þessu dæmi. Ég gæti en hef ekki tíma til að sýna hæstv. ráðherra dæmi um að þetta eru verulegar upphæðir. Það er ekki svo, hæstv. ráðherra, að ekki sé hægt að svara þessu. Mér finnst þessi svör vera ámælisverð að því leyti til að ráðherrann skuli ekki hafa komið með dæmi um áhrif þess. Ég hefði gert þá kröfu að hann hefði gert það. Ég tel að með þessari breytingu, alveg burt séð frá hvað er eðlilegt eða ekki eðlilegt, verði menn alltaf að geta svarað því hvað lagabreyting þýðir í krónum og aurum. Það er eðlileg krafa alþingismanna óháð því hvort breytingin sé réttmæt út frá öðrum forsendum, en hér er um að ræða verulega skattalækkun til fyrirtækja þessa lands.