Tryggingagjald

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 21:54:52 (1278)

1996-11-14 21:54:52# 121. lþ. 24.7 fundur 145. mál: #A tryggingagjald# (gjaldhlutfall) frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[21:54]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Það er í sjálfu sér ekki mikið um þetta andsvar að segja annað en að sjónarmið eru einfaldlega ólík. Ég legg áherslu á að það er ekki verið að jafna, það er verið að ójafna. Það er verið að láta þá sem fyrir bera tiltölulega há tryggingagjöld borga meira til þess að greiða niður hjá öðrum atvinnugreinum sem borga lægri laun. Það er verið er að gera. Það er verið að færa á milli atvinnugreina og þannig ójafna frá því sem nú er. Það er verið að íþyngja atvinnugreinum sem nú eru reknar með tapi, eins og fiskvinnslu. Það er verið að bæta við skattlagningu á þá atvinnugrein. Sú atvinnugrein getur ekki bætt sér þá skattlagningu með því að hækka afurðaverð eða útsöluverð sinnar framleiðslu. Það er bundið á erlendum mörkuðum og verður ekki hreyft þó að íslensk stjórnvöld hækki gjöldin á þennan atvinnuveg. Hann verður því að bera þennan skatt og getur ekki velt honum af sér. Það er ekki hægt að halda því fram með neinum rökum að það bæti stöðu atvinnugreinar sem fyrir á í erfiðleikum, að hengja á hana fleiri bagga.