Tryggingagjald

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 22:04:25 (1282)

1996-11-14 22:04:25# 121. lþ. 24.7 fundur 145. mál: #A tryggingagjald# (gjaldhlutfall) frv., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[22:04]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég mæli einungis fyrir skoðunum mínum og ég held að þær hafi komið skýrt fram hvað varðar þetta frv. Það er svolítið mikilvægt að það kom fram hjá hv. þm. Ágústi Einarssyni að það sé engin ástæða til þess að gera þessa breytingu, eins og þetta er sé þetta allt leyfilegt með tilliti til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Það er út af fyrir sig nauðsynlegt að það komi hér fram. En ég hef þessa afstöðu til málsins vegna þess að ég vil reyna að tryggja að við þessa kerfisbreytingu, sem ég get út af fyrir sig alveg samþykkt og ég er ekki á móti kerfisbreytingunni sem slíkri, best er að það gildi sömu reglur um allar atvinnugreinar hvað varðar skatta, leggjum við ekki meira á íslenskan sjávarútveg og landbúnað en hann fær risið undir. Það er mergurinn málsins. Ef hv. þm. Ágúst Einarsson telur hins vegar að hann geti mælt fyrir því að sérstakar álögur séu lagðar á þessar greinar þá þarf hann að færa fyrir því rök. Það er gert með þessari breytingu.