Lífeyrissjóður bænda

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 23:00:29 (1299)

1996-11-14 23:00:29# 121. lþ. 24.12 fundur 118. mál: #A Lífeyrissjóður bænda# (kostnaðarhlutdeild ríkissjóðs) frv., fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[23:00]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum nr. 50/1984, um Lífeyrissjóð bænda, með síðari breytingum. Þetta er 118. mál þingsins og er á þskj. 129.

Hér er um að ræða sams konar breytingar og við þekkjum úr öðrum lífeyrissjóði, lífeyrissjóði aldraðra, en hér er verið að leggja til að orðalagið ,,til ársloka 1996`` falli brott. Í athugasemdunum segir m.a., með leyfi forseta:

,,Samkvæmt gildandi lögum hafa ríkissjóður, Stofnlánadeild landbúnaðarins og lífeyrissjóður bænda borið útgjöld vegna lífeyrisgreiðslna skv. 17. og 18. gr. laganna sbr. 24. gr. þeirra.``

Í þessum ákvæðum er kveðið á um lífeyri til bænda sem fæddir eru fyrir árið 1914 eða fyrr, þetta er með sama hætti og lífeyrissjóður aldraðra. Samkvæmt gildandi lögum eiga útgjöld vegna þessara lífeyrisgreiðslna að vera borin af Lífeyrissjóði bænda frá og með 1. jan. 1997 en fyrir liggur að Lífeyrissjóður bænda hefur ekki fjárhagslegt bolmagn til að taka á sig þau útgjöld sem ríkissjóður og Stofnlánadeild landbúnaðarins hafa borið hingað til. Í ljósi þess og með þeim breytingum sem lagðar hafa verið til í frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1997 að því er varðar lög um eftirlaun aldraðra er lagt til að gildandi fyrirkomulag um kostnaðarhlutdeild ríkisins og Stofnlánadeildar landbúnaðarins vegna lífeyrisgreiðslna til bænda sem fellur árið 1914 eða fyrr verði haldið óbreyttu. Þetta fyrirkomulag hefur verið framlengt til fimm ára í senn en nú er lagt til að fyrirkomulagið verði lögfest með þeim hætti til frambúðar.

Fólk sem fætt er 1914 og fyrr er orðið mjög fullorðið og í stað þess að vera að ýta málinu á undan sér til fimm ára í senn eða jafnvel til eins árs eins og ég held að hafi verið á tímabili er hér tekin ákvörðun sem er sama ákvörðun og tekin var um lífeyrissjóð aldraðra. Þær greiðslur sem koma frá viðkomandi aðilum munu smám saman lækka en í umsögn fjármálaskrifstofu fjmrn. kemur fram að framlagið verði á yfirstandandi ári 140 millj. kr. en reikna megi með af eðlilegum ástæðum að það lækki talsvert frá einu ári til annars. Síðan verði byggt á ósköp einföldum forsendum en alls ekki á neinni tryggingafræðilegri úttekt, sett fram dæmi þar sem lækkunin er árleg með vaxandi hraða hlutfallslega. Þá er talið að eftir 15 ár muni heildarfjárhæðin, sem hefði fallið niður að óbreyttum lögum, alls hafa numið um 1 milljarði kr. Þetta kemur fram í umsögninni og hefur reyndar þegar verið vitnað til hennar í umræðum um annað mál fyrr í dag.

Það skal tekið fram að fyrir þessu máli er séð í fjárlagafrv. sem liggur fyrir og þarf að afgreiða fyrir jól en talið var eðlilegt að fara þessa leið gagnvart því fólki sem á sínum tíma tryggði sig ekki í sérstökum lífeyrissjóði.

Virðulegi forseti. Ég legg til að málinu verði vísað til efh.- og viðskn. og 2. umr.