Svör ráðherra við óundirbúnum fyrirspurnum

Mánudaginn 18. nóvember 1996, kl. 15:22:26 (1321)

1996-11-18 15:22:26# 121. lþ. 26.92 fundur 101#B svör ráðherra við óundirbúnum fyrirspurnum# (um fundarstjórn), BH
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur

[15:22]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Svavari Gestssyni fyrir að taka þetta mál upp og tek undir hvert orð hans þar sem hann gagnrýnir það að hæstv. ráðherrar svari ekki fyrirspurnum þó að þeir séu til þess komnir sérstaklega í þingsal.

Það er algerlega óþolandi að verða vitni að því trekk í trekk að hæstv. ráðherrar beinlínis svara ekki fyrirspurnum sem til þeirra er beint. Mér finnst það vera hreint með ólíkindum að þingið skuli ekki hafa einhver úrræði til þess að bregðast við þessu. Ég veit að erfitt er að koma við þvingunaraðgerðum en ég tek undir það sem hv. þm. Svavar Gestsson sagði áðan að ástæða er til að fara fram á það við hæstv. forseta að hann a.m.k. beini því til viðkomandi ráðherra að fyrirspurnum sé svarað sem hér eru bornar fram. Ég vil um leið minna á að í síðustu viku var einmitt tekið upp að frumkvæði hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur þetta sama mál þar sem hún vildi meina að skriflegri fyrirspurn sem hún hafði beint til hæstv. heilbrrh. hefði ekki verið svarað þó að það hafi verið lagt fram skriflegt svar.

Spurningin til hæstv. forseta er sú hvort ekki séu einhver úrræði sem þingið hefur til þess að krefja þessa æðstu ráðamenn framkvæmdarvaldsins svara þar sem beinlínis er gert ráð fyrir því í þingsköpunum að þeir komi hingað í þingsal til að svara fyrirspurnum þingmanna.