Stytting vinnutíma án lækkunar launa

Mánudaginn 18. nóvember 1996, kl. 16:16:23 (1342)

1996-11-18 16:16:23# 121. lþ. 26.13 fundur 4. mál: #A stytting vinnutíma án lækkunar launa# þál., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur

[16:16]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það kom fram í máli ráðherrans áðan að ef aðilar vinnumarkaðarins gætu komið sér saman um að setja yfirvinnu inn í taxta, þá væri hann hlynntur því og ánægður með það og um það hljótum við öll að vera sammála. Það væri mjög gott og að því ber að stefna. Það væri hins vegar fróðlegt að heyra hver er ástæða þess að þetta hefur ekki verið gert fyrr að mati félmrh. vegna þess að úr munni hans hljómaði þetta eins og eitthvað sem menn gætu tekið einfalda ákvörðun um við samningaborðið.

Nú hefur þetta verið mikið baráttumál mjög margra um langt árabil og þess vegna, eins og ég segi, væri fróðlegt að vita hvort eitthvað er breytt frá því er var, vegna þess að menn hafa tínt það til að veigamiklar ástæður væru fyrir því að þetta gengur svona illa hjá okkur, bæði kerfislegar og ekki síður efnislegar, og hafa þar m.a. vísað til þess að framleiðni íslenskra fyrirtækja er með því lægsta sem gerist í OECD-ríkjunum.