Atvinnuleysistryggingar

Þriðjudaginn 19. nóvember 1996, kl. 16:23:13 (1390)

1996-11-19 16:23:13# 121. lþ. 27.7 fundur 171. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (heildarlög) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[16:23]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Við ræðum hérna frv. um atvinnuleysistryggingar en jafnframt liggur fyrir þinginu frv. um vinnumarkaðsaðgerðir sem er mjög nátengt og er eiginlega útilokað að ræða annað frv. án hins en sú var ákvörðun var tekin að það yrði ekki gert.

Herra forseti. Atvinnuleysi er persónulegt böl sem oft á tíðum verður að persónulegum harmleik. Skilaboðin sem hinn atvinnulausi einstaklingur fær eru þau að hann sé óþarfur, hann sé ekki fullgildur borgari í landinu. Hann taki ekki þátt í því að skapa verðmæti. Jafnvel þegar menn stofna til átaksverkefna til þess að veita þessum einstaklingi vinnu þá hefur hann það á tilfinningunni að hann sé í rauninni eingöngu að vinna til þess að vinna en ekki til þess að búa til verðmæti. Allt þetta leiðir til niðurbrots á sjálfsvirðingu einstaklingsins sem oft innan ekki mjög langs tíma, jafnvel innan sex mánaða, leiðir til þess að maðurinn verður öryrki. Maðurinn sem var fullvinnandi er orðinn öryrki vegna þess að hann er búinn að missa allt sjálfstraust. Hann þarf á hverjum degi að horfa á eftir maka sínum og börnum í vinnu og sitja eftir heima aðgerðarlaus og bíða eftir því að fá vinnu. Þetta er niðurbrjótandi.

Herra forseti. Í öllum kerfum sem búin hafa verið til kemur upp misnotkun. Misnotkun sem gerir það erfitt að veita þá félagslegu þjónustu sem við í rauninni viljum. Þá þarf oft að taka til hendinni og skerða og takmarka til þess að koma í veg fyrir misnotkunina. Og minnka þannig í rauninni þá þjónustu sem við vildum gjarnan veita. Við horfum upp á raunverulega atvinnulaust fólk. Það er sérstaklega eldra fólk sem hefur staðnað í vinnu sinni, störfin eða iðnin sem það stundaði hefur verið lögð niður eða er orðin úrelt eða henni hefur verið breytt. Við horfum líka upp á staðbundið atvinnuleysi á ýmsum minni stöðum þar sem fyrirtækjum er lokað eða umsvif minnka. Svo horfum við upp á unglinga sem detta út úr skóla og fá enga starfsmenntun og geta í rauninni hvergi unnið. Þetta er hið raunverulega atvinnuleysi. Og þetta er það atvinnuleysi sem við viljum bæta. Svo horfum við upp á það að í núverandi kerfi er nokkuð um fólk sem í rauninni er ekki fært til að vinna. Þetta er fólk sem er sjúkt, getur ekki unnið nema mjög takmarkað eða viss störf og er í rauninni ekki atvinnulaust í þeim skilningi að það sé tilbúið að taka að sér hvaða starf sem er. Svo horfum við upp á ofnotkun á kerfinu. Það er fólk sem er ekkert á vinnumarkaði, ætlar sér ekkert á vinnumarkað. Það er fólk sem er t.d. að sinna börnum sínum og telur sér ekki henta að fá vinnu en þiggur engu að síður atvinnuleysisbætur eins og kerfið er í dag. Og svo horfum við upp á hreina misnotkun. Misnotkun felst í því að maður sem tekur atvinnuleysisbætur er jafnframt í vinnu annars staðar sem þá er væntanlega svört og ekki gefin upp og ekki borgað af henni skattar og skyldur. Ég ætla ekki að leggja dóm á það hvernig skiptingin á milli þessara hópa er en margir hafa sagt mér og ég hef trú á því að misnotkunin og ofnotkunin sé umtalsverð. Hér eru í húfi miklir fjármunir, 3.000 milljónir á ári, og ef tækist að minnka ofnotkunina þá mundu sparast hundruð milljóna ef ekki milljarðar.

Herra forseti. Við erum að búa til fátækragildrur. Sú misnotkun sem ég nefndi áðan grefur undan siðferði og veldur gremju hjá þeim sem eru að vinna. Hvatinn til að vinna hjá manni sem er með atvinnuleysisbætur er oft á tíðum mjög lítill vegna þess að launataxtar hér á landi eru of lágir miðað við atvinnuleysisbæturnar.

Menn kunna að velta fyrir sér orsökum atvinnuleysis og það hefur allt of lítið verið gert af því. T.d. hafa lágmarkslaun áhrif á atvinnuleysi. Ef lágmarkslaun í landinu væru 1.000 kr. á mánuði þá væri ekkert atvinnuleysi. Þá fengju allir störf --- ég er engan veginn að leggja það til. Ef lágmarkslaunin væru 1 milljón á mánuði þá væru allir Íslendingar atvinnulausir, hver einn og einasti. Hvert einasta fyrirtæki mundi leggja upp laupana. Atvinnuleysi er mjög háð lágmarkslaunum.

Uppsagnarfrestur hefur líka áhrif á atvinnuleysi. Við skulum hugsa okkur að við séum með verktakafyrirtæki og við erum með verkamenn og iðnaðarmenn og með verkefni til þriggja mánaða og verkefnin dragast saman. Þá segjum við að sjálfsögðu upp öllum iðnaðarmönnunum því þeir eru með þriggja mánaða uppsagnarfrest en ekki verkamönnunum því þeir eru með viku uppsagnarfrest. Svo fáum við verkefni og þá munum við láta þá iðnaðarmenn sem eftir sátu vinna mikla yfirvinnu til þess að taka ekki áhættuna að sitja uppi með iðnaðarmenn sem hafa þriggja mánaða uppsagnarfrest. Þannig veldur uppsagnarfrestur atvinnuleysi. Þannig má segja að öll félagsleg úrræði, lágmarkslaun, uppsagnarfrestur o.s.frv. geri vinnumarkaðinn stífan og hann er ekki lengur sveigjanlegur og það veldur atvinnuleysi. Þetta sjáum við í Evrópu. Þar er viðvarandi atvinnuleysi, að mínu mati, vegna þess hve vinnumarkaðurinn og reglur á vinnumarkaðinum eru stífar. Þar kemur líka til skattlagning fyrirtækja og sitthvað fleira.

Herra forseti. Það frv. sem við ræðum hér er til bóta. Margt er þar gert til þess að koma í veg fyrir þá misnotkun og ofnotkun sem ég gat um áðan oft á tíðum til hins verra fyrir hinn atvinnulausa, eins og ég nefndi. Oft þarf að minnka félagslega kerfið til þess að koma í veg fyrir misnotkun. T.d. er biðtíminn lengdur úr þremur dögum í tvær vikur. Það er að sjálfsögðu slæmt fyrir hinn atvinnulausa en mun minnka atvinnuleysi umtalsvert. Síðan er horfið frá því sem tíðkast nokkuð núna að veita fólki atvinnuleysisbætur sem er í hálfu starfi, sem þekkist hvergi annars staðar.

[16:30]

Í frv. er auk þess gert ráð fyrir að menn hækki ekki í tekjum við að fara á atvinnuleysisbætur sem að sjálfsögðu er ákaflega óeðlilegt en getur komið til í dag. Svo er líka gert ráð fyrir því að bætur úr lífeyrissjóðum og aðrar bætur komi til frádráttar sem er sjálfsagt mál --- ég mun leggja til í hv. félmn. að tekjuhugtakið almennt verði skoðað nánar --- og að frá atvinnuleysisbótum dragist alls konar tekjur.

Það sem er galli við frv. er í rauninni kannski nafnið á því, atvinnuleysistryggingar. Ég mundi vilja umorða heiti frv. og láta það heita: Frumvarp til laga um atvinnutryggingar, því að það er jákvætt að tryggja fólki atvinnu í staðinn fyrir að tryggja það gegn atvinnuleysi eða tryggja það þegar það er orðið atvinnulaust.

Í frv. eru nokkrir gallar. Í fyrsta lagi finnst mér vanta sveigjanleika til að hafna starfi. Mér finnast fjórar vikur ekki vera nóg til að geta hafnað starfi. Mér finnst of stutt að maður sem hefur starfað í fjölda ára í einhverri ákveðinni grein þurfi að skipta um starf af því að hann fær ekki vinnu á fjórum vikum þannig að það mætti jafnvel lengja það í sex vikur eða eitthvað slíkt. Svo vantar inn í frv. ákvæði um það að menn þurfi að hafa fjárhagslegan ávinning af því að skipta um starf. T.d. að ef menn þurfa að fara út á land, þá sé tekinn inn í myndina kostnaðurinn sem því fylgir og það sé tryggt að maðurinn fái vinnu í hæfilega langan tíma til að ferðir og annað borgi sig. Þetta vantar.

Herra forseti. Fólki er núna tíðrætt um alls konar jaðarskatta, þ.e. þegar bætur frá hinu opinbera skerðast þegar tekjur hækka. Í þessu frv. er haldið við einni mestu tekjutengingu sem til er, jaðarsköttum. Tökum sem dæmi: Ef kona er með 200 þús. kr. á mánuði áður en hún varð atvinnulaus fær hún ekki bætur í sex mánuði, þ.e. hún missir 300 þús. kr. í bætur. Þessi kona var þó búin að borga skatta af þessum tekjum sínum. Hún var búin að missa sérstakar barnabætur ef það átti við og hún var búin að missa vaxtabætur. Og þarna missir hún 300 þús. kr. til viðbótar. Atvinnurekandi hennar hafði greitt hennar vegna mjög hátt tryggingagjald en þrátt fyrir að hennar vegna hafi verið borgað mjög mikið inn í kerfið, þá fær hún ekki bætur í sex mánuði. Þessu er haldið við. Ég legg til að hv. félmn. skoði hvort ekki megi fella niður þessa tekjutengingu. Mér finnst eðlilegt að fólk sem hefur borgað inn í kerfið af miklu hærri launum fái þó a.m.k. þessar atvinnuleysisbætur sem eru óháðar launum.

Í frv. um vinnumarkaðsaðgerðir eru margar reglur um hvernig virkja megi hinn atvinnulausa. Það er mjög jákvætt, verulega jákvætt og kemur í veg fyrir þá félagslegu eymd og böl sem einstaklingurinn lendir í. En mér finnst þær reglur ekki vera nógu ákveðnar, ekki vera nógu fastar. Það er ekki kveðið á um að maðurinn sé í þessum aðgerðum frá kl. 8--4 eða eitthvað slíkt, að það sé full vinna. Ef svo væri þá væri ég mjög ánægður með það frv. En það frv. ræðum við ekki núna.

Herra forseti. Í sambandi við önnur frv. sem við erum að ræða hér, þ.e. frv. um tryggingagjald, hefur verið ákveðið að iðgjald í atvinnuleysistryggingar verði 1,35% af launum allra landsmanna og þá má fara að líta á þetta sem tryggingaiðgjald en ekki skatt, þ.e. að tryggingagjaldið verði ekki lengur skattur heldur tryggingaiðgjald í Atvinnuleysistryggingasjóð. Þá finnast kannski lausnir á öðrum vandamálum sem við höfum verið að tala um, þ.e. t.d. atvinnuleysisbætur til bænda og sjálfstætt starfandi einstaklinga. Það er mjög erfitt að borga bændum atvinnuleysisbætur. Sauðfjárbóndinn sem er að gefa sauðfé á veturna er greinilega ekki í fullu starfi. Síðan um sauðburðinn um vorið er þessi sami maður í fjórföldu starfi. Á hann að fá atvinnuleysisbætur fyrir hálft starf meðan hann gefur eða hvað? Þetta er ákaflega erfitt viðureignar. Ég mundi leggja til að þessi maður gæti hreinlega sagt sig úr atvinnuleysistryggingum. Þá borgar hann ekki tryggingagjaldið 1,35% og er ekki tryggður og sama á við um aðra sjálfstætt starfandi menn þar sem erfitt er að koma við bótum.

Þegar Atvinnuleysistryggingasjóður er orðinn þannig að 1,35% af öllum tekjum renna til hans, þá liggur næst við að fara að tekjutengja bæturnar þannig að menn sem eru með hærri tekjur og hafa borgað meira inn í sjóðinn fái þá líka hærri atvinnuleysisbætur. Það mætti mjög vel skoða það. Þetta er víða við lýði enda má segja að hjá manni eða konu sem er með 200 þús. kr. á mánuði og er búinn að venja sig og fjölskyldu sína á þær tekjur, verður höggið miklu meira við það að verða atvinnulaus en hjá öðrum manni eða konu sem er með 100 þús. kr. á mánuði þannig að ég legg til að menn skoði þann möguleika.