Atvinnuleysistryggingar

Þriðjudaginn 19. nóvember 1996, kl. 17:03:36 (1394)

1996-11-19 17:03:36# 121. lþ. 27.7 fundur 171. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (heildarlög) frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[17:03]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Í fyrsta lagi vil ég vekja athygli á að danska atvinnuleysiskerfið er tvöfalt. Það er þetta lögbundna kerfi sem allir ganga í og síðan eiga menn kost á að kaupa sér aukin réttindi. Mjög margir og flestallir danskir launþegar gera það. Þegar menn bera saman þessi kerfi átta menn sig yfirleitt ekki á því að þeir eru að bera saman bæði kerfin. Það er þetta sem gerir hinn mikla mismun.

Í öðru lagi vil ég vekja athygli á þeirri breytingu sem er í frv., þ.e. að færa 16 ár upp í 18 ár, að í engri atvinnuleysislöggjöf í Evrópu er kveðið á um að menn geti fengið atvinnuleysisbætur 16 ára, engri. Lægstu aldursmörk eru 18 ár og mjög víða 20 ár vegna þess að menn líta ekki á unglinga sem hluta af vinnumarkaðnum neins staðar í Evrópu. Þegar við ákváðum að koma með þessa tillögu lá það fyrst og fremst til grundvallar að mjög hættulegt væri, herra forseti, fyrir ungmenni svo ung, að félagsleg opinber aðstoð væri valkostur fyrir þau. Vegna þess að þó félagsleg aðstoð sé lífsnauðsynleg í öllum samfélögum fyrir þá sem á einhvern hátt eru með skerta getu, er það fátæktargildra ef fullfrískt ungt fólk verður þarna fast. Og það eru mörg dæmi þess en ekki hins gagnstæða. Það er verið að reyna að koma í veg fyrir það.