Landmælingar og kortagerð

Þriðjudaginn 19. nóvember 1996, kl. 19:22:14 (1419)

1996-11-19 19:22:14# 121. lþ. 27.11 fundur 159. mál: #A landmælingar og kortagerð# (heildarlög) frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[19:22]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka áhuga þessa hv. þm. sem hér tók til máls. Það var kannski ekki endilega svo að ég væri að hvetja menn til þess að tala hér eða halda langar ræður. Ég vil hins vegar lýsa ánægju minni með að fram skuli koma áhugi á málefninu --- og hann geta menn náttúrlega sýnt á ýmsan hátt --- og áhugi á þessari starfsemi sem hið opinbera þarf og ber að inna af hendi og sinna. Ég veit t.d. að hæstv. fyrrv. umhvrh., hv. þm. Össur Skarphéðinsson, sýnir málinu áhuga því eins og fram kom í framsöguræðu minni var nefnd sú sem gerir tillögur að þessu frv. sett á laggirnar 21. febrúar 1995. Hæstv. fyrrv. umhvrh. hefur þess vegna staðið að því. Enda er þetta ekki fyrsta málið sem ég ber inn í hv. Alþingi sem hann hefur átt frumkvæði að að vinna.

Hv. þm. spurði m.a. um tækjabúnað og aðstöðu stofnunarinnar. Vissulega þyrfti þar að gera betur. Stofnunin þyrfti að vera betur búin hvað þetta varðar og í tillögum stofnunarinnar til ráðuneytisins um fjárveitingar til tækjakaupa, er því ekkert að leyna, enda hygg ég að hv. nefndarmenn í umhvn. hafi fengið um þetta upplýsingar, að stofnunin gerði tillögu um allmiklu hærri fjárveitingu til tækjakaupa en bæði fjárlög í ár og fjárlagafrv. næsta árs gera ráð fyrir.