Virkjun Héraðsvatna í Skagafirði

Mánudaginn 02. desember 1996, kl. 15:19:45 (1623)

1996-12-02 15:19:45# 121. lþ. 32.1 fundur 117#B virkjun Héraðsvatna í Skagafirði# (óundirbúin fsp.), iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[15:19]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ég hef fullan skilning á þessum sjónarmiðum, þ.e. þeim að mikilvægt sé að geta dreift opinberum framkvæmdum um landið og þá með tilliti til þess hvar uppsveiflan er á hverjum tíma. Það sem menn hins vegar hafa að leiðarljósi þegar tekin er ákvörðun um næsta virkjunarkost er eins og ég sagði áðan, hversu mikil eftirspurnin er eftir þeirri orku sem hugsanlega er hægt að selja og þá vega menn og meta: Hversu stór þarf virkjunin að vera sem ráðist er í að byggja?

Oft og tíðum er stór virkjun mjög hagkvæm en hún er ekki hagkvæm þegar til lengri tíma er litið ef menn sitja uppi í ár eða áratugi með ónýtta afkastagetu. Þess vegna reyna menn að stilla saman það magn orku sem verið er að biðja um og hversu stór og afkastamikil virkjunin skuli vera sem ætti að mæta þeirri eftirspurn sem þar væri til staðar. Það er þetta sem menn þurfa að hafa í huga og meta saman þegar slík ákvörðun er tekin.