Fjárfestingar sölusamtaka í sjávarútvegi erlendis

Mánudaginn 02. desember 1996, kl. 15:50:17 (1637)

1996-12-02 15:50:17# 121. lþ. 32.95 fundur 112#B fjárfestingar sölusamtaka í sjávarútvegi erlendis# (umræður utan dagskrár), ÁE
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[15:50]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Ég tek undir með öðrum sem hér hafa talað að ég átta mig ekki alveg á uppleggi hv. þm. Ég held hins vegar að áhyggjur hans af þessari þróun, þ.e. fjárfestingum Íslendinga erlendis, séu ástæðulausar. Ég kýs einnig að benda á að menn ræða ekki lengur í sjávarútvegi út frá hugtakinu ,,fullvinnsla`` eins og gert var áður fyrr heldur er talað miklu frekar um smásölupakkningar, þ.e. pakkningar sem komast nær neytanda. Þessi áhersla og vinnsluaðferð hefur stóraukist á undanförnum árum. Hefðbundin blokkaframleiðsla til frekari úrvinnslu erlendis hefur mjög látið undan síga á síðari árum. Ég bendi á að útflutningur á ferskum fiski til frekari vinnslu erlendis hefur stórminnkað síðustu 10 ár, m.a. vegna innlendu fiskmarkaðanna. Fjárfestingar íslensku fisksölufyrirtækjanna erlendis hafa verið Íslendingum mjög notadrjúgar og verðmætasta eign Íslendinga, ef horft er yfir 50 ára sögu, eru einmitt fjárfestingar íslensku sölufyrirtækjanna erlendis sem hafa staðið að mörgu leyti undir lífskjörum okkar Íslendinga.

Ég vil einnig upplýsa í þessari umræðu að það er sérstök vinna í gangi með formlegum hætti, sem bæði SH og ÍS eiga aðild að, þ.e. að styrkja enn frekar úrvinnslumöguleika hérlendis innan sjávarútvegsins. Menn geta kallað það fullvinnslu ef menn vilja svo. Fjárfestingar íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja erlendis eru mjög af hinu góða og skila okkur verðmæti í íslenskt þjóðarbú bæði með markaðsnálægð, peningum og fólki starfandi á þessum vettvangi. Heimurinn er eitt markaðssvæði. Það eina sem við getum e.t.v. sagt í þessari umræðu er að við höfum farið of seint inn á alþjóðamarkað með fjárfestingar í þeim kröftuga mæli sem við höfum gert núna síðustu ár og e.t.v. of lítið. Það er kannski í þá áttina frekar sem ég hef áhyggjur af. Og ég vil benda á það að fjárfestingar Íslendinga hér á landi í sjávarútvegi nema nú tæpum 10 milljörðum á þessu ári svo ekki vantar fjármagn til að standa að góðum og öflugum fjárfestingum í greininni.