Staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur

Miðvikudaginn 04. desember 1996, kl. 19:35:10 (1823)

1996-12-04 19:35:10# 121. lþ. 35.3 fundur 143. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# (hlutdeildarskírteini, afföll) frv., Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[19:35]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er þess fullviss að ef hv. þm. hugsar þetta mál aðeins betur, hlýtur hann að komast að þeirri niðurstöðu að það sé ástæða til þess að leyfa ákveðinn sveigjanleika í uppbyggingu í skattkerfum okkar, einmitt ef það mætti verða til þess að lækka kostnaðinn við framkvæmd kerfisins. Ég hygg að það hljóti að þurfa að skoða það í framtíðinni hvort ekki sé hægt að auka þennan sveigjanleika í innheimtu fjármagnstekjuskattsins enn þá meira, m.a. gagnvart þeim aðilum sem hv. þm. nefndi.

Ég get ekki séð annað en það hljóti að vera öllum í hag, sérstaklega þeim sem skulda, að innheimta krafna og starfsemi þeirra aðila sem að þessum málum koma sé eins hagkvæm og ódýr og hægt er, ef ekki er verið að fórna neinu í öryggi á kerfinu sem ég tel að sé að sjálfsögðu úrslitaatriði. Ég tel að við megum ekki gerast þvílíkir kerfisþrælar að við látum fagurfræðileg sjónarmið í uppbyggingu skattkerfisins skipta meira máli heldur en praktísk atriði sem hægt er að taka upp til þess að lækka kostnað við kerfið og gera það þjálla fyrir alla.